Tilnefningarnefnd Arion banka hefur lagt til að stjórn bankans næsta starfsárið verði skipuð fimm af núverandi sex stjórnarmönnum. Sjö einstaklingar gefið kost á sér til stjórnarsetu hjá Arion fyrir aðalfund bankans þann 13. mars næstkomandi.
Tilkynnt var fyrir rúmum mánuði síðan að Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Arion banka, hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Hann hefur verið stjórnarformaður bankans síðastliðin fimm ár en hann var fyrst kjörinn í stjórnina árið 2014.
Hinir fimm sitjandi stjórnarmenn bankans sækjast allir eftir áframhaldandi stjórnarsetu. Tilnefningarnefnd bankans leggur til að þeir verði allir endurkjörnir og að fjöldi stjórnarmanna fækki aftur niður í fimm talsins. Núverandi stjórn sé skipuð afar hæfum einstaklingum sem séu samstíga og skilvirkir í vinnu sinni og að samsetningin stjórnar sé góð.
„Það er mat tilnefningarnefndar að miklu máli skipti að núverandi stjórnarmenn hafa setið í stjórn bankans um árabil og búa því að talsverðri reynslu af stjórnarstörfunum. Að mati tilnefningarnefndar hafa gæði og skilvirkni stjórnarstarfsins aukist í seinni tíð og má telja líklegt að þar skipti meiri reynsla höfuðmáli.“
Í samþykktum bankans er kveðið á um að stjórn félagsins skuli skipuð fimm til átta stjórnarmönnum. Á aðalfundi Arion árið 2021 var samþykkt að í aðalstjórn bankans yrðu fimm einstaklingar en þeir höfðu verið sjö frá fjármálahruninu.
„Tilnefningarnefnd telur að hæfilegur fjöldi stjórnarmanna næsta starfsárs séu fimm. Á síðasta starfsári sátu sex manns í stjórninni en þar var um tímabundna ráðstöfun að ræða,“ segir í skýrslu tilnefningarnefndar.
Tilnefna Horner sem stjórnarformann
Tilnefningarnefnd leggur til að eftirfarandi aðilar verði kjörnir í stjórn bankans:
- Paul Horner, varaformaður – tók sæti í stjórn í ágúst 2019
- Gunnar Sturluson – tók sæti í stjórn í ágúst 2019
- Kristín Pétursdóttir – tók sæti í stjórn í mars 2023
- Liv Fiksdahl – tók sæti í stjórn í mars 2019
- Steinunn Kristín Þórðardóttir – tók sæti í stjórn í nóvember 2017
Þá leggur tilnefningarnefnd jafnframt til að Paul Horner verði kjörinn formaður stjórnar og að Kristín Pétursdóttir verði kjörin varaformaður. Enn fremur situr Paul í stjórn bresks dótturfélags The National Bank of Kuwait. Paul hefur unnið lengi í fjármálageiranum og starfaði m.a. í framkvæmdastjórnum hjá The Royal Bank of Scotland Group, Coutts & Co Ltd., Coutts & Co Ltd. og Ulster Bank DAC.
Kristín er annar stofnenda Auðar Capital og starfaði sem forstjóri þess fyrirtækis frá 2007 til 2013 og sem stjórnarformaður frá 2013-2017. Þá var hún stjórnarformaður Kviku banka á árunum 2018-2020, forstjóri Mentor 2015-2017, framkvæmdarstjóri fjárstýringar Kaupþings banka 1997-2005 og aðstoðarforstjóri Singer & Friedlander 2005-2007.
Guðrún Johnsen vill aftur í stjórn Arion
Alls bárust fjórtán framboð til aðalstjórnar Arion, þar af fimm frá sitjandi stjórnarmönnum. Sjö af þeim níu frambjóðendum sem ekki hlutu tilnefningu drógu framboð sín til baka þegar þeim var tilkynnt að þeir hlytu ekki tilnefningu.
Tveir frambjóðendur sem ekki hlutu tilnefningu til stjórnarsetu, Guðrún Johnsen og Peter Franks, hafa upplýst nefndina um vilja sinn til að vera áfram í kjöri til stjórnar á aðalfundi Arion.
Guðrún Johnsen var varaformaður stjórnar Arion banka frá árinu 2010 til 2017. Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að Guðrún hafi frá upphafi árs 2023 starfað sem efnahagsráðgjafi hjá Danmarks Nationalbank. Frá árinu 2021 fram til 2023 starfaði Guðrún sem lektor í stjórnarháttum fyrirtækja hjá viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.
Peter Franks er sænskur og ástralskur ríkisborgari sem er fæddur árið 1970. Peter starfar sem tímabundinn fjármálastjóri hjá AVIDA Finans AB í Svíþjóð og hefur frá 2019 sinnt ráðgjöf og fjármálastjórn undir merkjum eigin félags, Nordic Directorship & Interim Management AB í Svíþjóð. Á árunum 2016-2019 starfaði Peter sem fjármálastjóri NREP (Nordic Real Estate Partners). Áður starfaði Peter hjá endurskoðunarfyrirtækinu EY í yfir 20 ár víða um heim og kom m.a. að endurskoðun Arion banka sem starfsmaður fjármálaþjónustu EY EMEIA á árunum 2008-2014.