Breska fjármálaeftirlitið (FCA) hyggst banna einstaklingum að fjármagna kaup á rafmyntum með lántöku, þar með talið með kreditkortum.
Bannið er liður í víðtækum tillögum sem ætlað er að koma stórum hluta rafmyntamarkaðarins undir beint eftirlit í fyrsta sinn.
Tillögurnar fela í sér strangari skilyrði fyrir þjónustuaðila sem bjóða upp á viðskipti með rafmyntir til almennings, með það að markmiði að draga úr áhættu og vernda fjárfesta, samkvæmtFinancial Times.
Þetta á meðal annars við um viðskiptavettvanga, miðlara, rafmyntalánveitendur og -lántakendur, auk svokallaðra „decentralized finance“ (DeFi) kerfa.
„Rafmyntir fela í sér vaxtartækifæri fyrir Bretland, en við verðum að gera þetta rétt. Til þess þurfum við að tryggja viðeigandi vernd,“ segir David Geale, framkvæmdastjóri fyrir greiðslur og stafræn fjármál hjá FCA, við Financial Times.
Samkvæmt FCA hefur hlutfall breskra neytenda sem fjármagna rafmyntakaup með lánsfé tvöfaldast frá 2022 til 2023 úr 6% í 14%.
Slík lántaka er talin skapa mikla áhættu, sérstaklega ef virði rafmyntarinnar hrapar og fjárfestar treysta á virði hennar til að endurgreiða skuldir sínar.
Auk bannsins við lánum hyggst FCA útiloka almenna fjárfesta frá sérhæfðum rafmyntalánveitendum, á borð við Celsius Network, sem hrundi árið 2022 í kjölfar markaðskreppu í rafmyntageiranum.