Breska fjár­mála­eftir­litið (FCA) hyggst banna ein­stak­lingum að fjár­magna kaup á raf­myntum með lántöku, þar með talið með kredit­kortum.

Bannið er liður í víðtækum til­lögum sem ætlað er að koma stórum hluta raf­mynta­markaðarins undir beint eftir­lit í fyrsta sinn.

Til­lögurnar fela í sér strangari skil­yrði fyrir þjónustu­aðila sem bjóða upp á við­skipti með raf­myntir til al­mennings, með það að mark­miði að draga úr áhættu og vernda fjár­festa, sam­kvæmtFinancial Times.

Þetta á meðal annars við um við­skipta­vett­vanga, miðlara, raf­myntalán­veit­endur og -lántak­endur, auk svo­kallaðra „decentra­lized finance“ (DeFi) kerfa.

„Raf­myntir fela í sér vaxtartækifæri fyrir Bret­land, en við verðum að gera þetta rétt. Til þess þurfum við að tryggja við­eig­andi vernd,“ segir David Gea­le, fram­kvæmda­stjóri fyrir greiðslur og stafræn fjár­mál hjá FCA, við Financial Times.

Samkvæmt FCA hefur hlut­fall breskra neyt­enda sem fjár­magna raf­mynta­kaup með láns­fé tvöfaldast frá 2022 til 2023 úr 6% í 14%.

Slík lán­taka er talin skapa mikla áhættu, sér­stak­lega ef virði raf­myntarinnar hrapar og fjár­festar treysta á virði hennar til að endur­greiða skuldir sínar.

Auk bannsins við lánum hyggst FCA úti­loka al­menna fjár­festa frá sér­hæfðum raf­myntalán­veit­endum, á borð við Celsius Network, sem hrundi árið 2022 í kjölfar markaðskreppu í raf­mynta­geiranum.