Tilnefningarnefnd Icelandair leggur til að stjórn Icelandair Group verði öll endurkjörin á aðalfundi félagsins 3. mars næstkomandi.
Tilnefningarnefndin segir í skýrslu sinni að gerðar hefðu verið smávægilegar breytingar á hæfniskröfum til að endurspegla betur stefnu og sýn flugfélagsins. Reynsla og skilningur á „anda Íslands" (e. Spirit of Iceland) komi í stað reynslu af ferðaþjónustu. Nefndin sammældist um að stjórn félagsins skuli hafa sterk tengsl við Ísland.
Nefndin leggur til að eftirtaldir aðilar skipi áfram stjórn Icelandair, en Guðmundur Hafsteinsson er núverandi stjórnarformaður og Nina Jonsson er varaformaður stjórnar.
- Guðmundur Hafsteinsson
- John F. Thomas
- Matthew Evans
- Nina Jonsson
- Svafa Grönfeldt
Guðmundur Hafsteinsson , fjárfestir og frumkvöðull, er forstjóri og stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Fractal 5. Guðmundur var yfirmaður vöruþróunar hjá Google á árunum 2014-2019. Þar áður leiddi hann þróunarvinnu hjá ýmsum fyrirtækjum, þar á meðal Apple, og eins fyrirtækjum sem hann stofnaði sjálfur og voru síðar yfirtekin.
John F. Thomas er forstjóri og stofnandi leiguflugfélagsins Waltzing Matilda Aviation LLC. Hann er ráðgjafi hjá McKinsey & Co og var framkvæmdastjóri Virgin Australia Airlines á árunum 2016-2017.
Matthew Evans er framkvæmdastjóri hjá Bain Capital Credit, en hann hefur starfað fyrir fjárfestingafélagið síðan 2009. Hann er yfirmaður fjárfestinga félagsins í flugiðnaði og öðrum atvinnugeirum.
Nina Jonsson (Jónína Ósk Sigurðardóttir) er ráðgjafi hjá Plane View Partners og stjórnarformaður hjá hugbúnaðarfyrirtækinu FLYHT Aerospace Solutions. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Air France-KLM á árunum 2015-2017.
Svafa Grönfeldt situr í stjórn MIT DesignX, viðskiptahraðals hjá MIT háskólanum í Boston. Hún er meðstofnandi sprotasjóðsins MET sem hefur aðsetur í Cambridge. Hún situr í stjórn Össurar og Marel og var áður framkvæmdastjóri hjá Alvogen. Hún var þar áður aðstoðarforstjóri Actavis Group og rektor Háskólans í Reykjavík.