Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í ágúst í fyrsta skipti í eitt ár. Ráðgjafar- og greiningarfyrirtækið segir of snemmt að álykta um að þetta feli í sér breytingu á horfum um að hagvöxtur minnki eða að til samdráttar geti komið. Þróun næstu mánaða muni leiða það í ljós.

Þrír af sex undirliðum hagvísisins hækka frá fyrri mánuði. Það eru einkum verðmæti fiskafla og væntingavísitala Gallup sem stuðla að hækkun hagvísisins en innlend debetkortavelta í verslun innanlands og vöruinnflutningur lækka.

„Umtalsverð óvissa er áfram tengd stríðinu í Úkraínu. Framvindan á fjármálamarkaði er einnig áfram meðal óvissuþátta vegna verðbólgu og aðgerða ýmissa seðlabanka í þá veru að minnka peningalega þenslu,“ segir í frétt á vef Analytica.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Hagvísirinn tekur gildið 100 þegar búist er við að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni. Hagvísirinn tekur gildið 99,7 í ágúst.