Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði lítillega í október annan mánuðinn í röð. Hækkunin er þó ekki metin marktæk enn sem komið er, að því er segir í frétt á vef Analytica.
„Þróun einstakra undirþátta hefur verið að festa sig í sessi í þá veru að benda til minni vaxtar eða samdráttar. Lengd lækkunartímabilsins endurspeglar horfur á hægum vexti næstu mánuði. Þá benda nýlegar tölur Hagstofu Íslands um landsframleiðslu til þess að merki um minni vöxt sé að ganga eftir.“
Fjórir af sex undirliðum hækka frá í september. Analytica segir að aukning aflamagns frá fyrri mánuði og hækkun væntingavísitölu Gallup hafi mest að segja á jákvæðu hliðinni en samdráttur debetkortaveltu að raungildi á þeirri neikvæðu.
„Umtalsverð óvissa er áfram tengd þróun alþjóðastjórnmála og í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi.“

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum.