Leiðandi hagvísir Analytica lækkaði áfram í júlímánuði. Þetta er tíundi mánurðinn í röð þar sem hagvísirinn, sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum, lækkar.
„Þróun einstakra undirþátta hefur verið að festa sig í sessi í þá veru að benda til minni vaxtar eða samdráttar. Lengd lækkunartímabilsins undanfarið bendir til dökknandi horfa næstu mánuði,“ segir í frétt á vef Analytica.
„Þá benda nýlegar tölur Hagstofu Íslands um landsframleiðslu til þess að merki um minni vöxt eða mögulegan samdrátt sé að ganga eftir.“

Fjórir af sex undirliðum hagvísisins lækka frá í júní. Lækkun á væntingavísitölu Gallup hafði mest að segja sem og samdráttur debetkortaveltu og vöruinnflutnings og minni fjölgun ferðamanna en áður. Analytica segir að áfram sé umtalsverð óvissa tengd þróun alþjóðastjórnmála og í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi.
Fram kemur að endurskoðun Seðlabankans á kortaveltutölum allt aftur til janúar 2023 hafi ekki haft afgerandi áhrif á þróun hagvísisins.