Iceland Seafood International, ISI, hefur lokið endurfjármögnun fyrir árið 2025, sem mun leiða til „verulegrar lækkunar á vaxtakostnaði félagsins.“ Í kjölfar endurfjármögnunarinnar standa langtímaskuldir ISI nú í um það bil 35 milljónum evra, eða ríflega 5 milljörðum króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að með endurfjármögnuninni styrkist fjárhagsstaða félagsins verulega, meðal annars með endurskipulagningu skulda, lækkun vaxtakostnaðar og bættri lausafjárstöðu.

Ægir Páll Friðbertsson, forstjóri Iceland Seafood, segir það gleðilegt að endurfjármögnun félagsins fyrir árið 2025 sé nú lokið.

„Með endurfjármögnun skuldabréfs með nýju skuldabréfi til 3,5 ára, einföldun skuldasamsetningar okkar og lækkun vaxtakostnaðar, höfum við skapað sterkan grunn fyrir áframhaldandi heilbrigðan rekstur og svigrúm til vaxtar. Með lækkandi vöxtum og jafnvægi í skuldasafni erum við í sterkri stöðu til að viðhalda fjárhagslegum stöðugleika og fylgja eftir rekstrarmarkmiðum.“

Vaxtaálag á erlendum lánum lækkar

Í tilkynningunni segir að ISI hafi lokið við umfangsmikla endurfjármögnun með útgáfu skuldabréfsins ICESEA 28 10 til 3,5 ára í apríl síðastliðnum en með útgáfunni lækkuðu skammtímaskuldir um 27,6 milljónir evra, á meðan langtímaskuldir hækkuðu um sömu fjárhæð.

Vaxtakjörin nema nú um 5,2%, þegar tillit er tekið til gjaldmiðlaskiptasamninga, miðað við núverandi gengi og Euribor vexti. Skuldabréfið ICESEA 25 06, sem bar 13% flata vexti, þar af 7,35% eftir rof á skilmálum í kjölfar sölu Iceland Seafood UK haustið 2023, var greitt upp 23. júní 2025.

Endurfjármögnun erlendra bankalána hefur skilað á milli 0,5–1,0 prósentustigi lægra vaxtaálagi. Lánasamsetning samstæðunnar hefur einnig verið einfölduð, sem stuðlar að aukinni yfirsýn og skilvirkari rekstri.

Víxlar, sem gefnir voru út í apríl og júní sem hluti af þessari endurfjármögnun, nema samtals 2,7 milljörðum ISK með flötum vöxtum á bilinu 8,5–8,7% (71 til 72 punkta álag á 6m Reibor). Þeir hafa verið færðir yfir í evrur með gjaldmiðlaskiptasamningum og eru til 6 mánaða.