Icelandair birti á dögunum uppgjör vegna ársins 2024. Tekjur flugfélagsins námu tæplega 1,6 milljörðum dala, sem nemur 216,6 milljörðum króna, og jukust um 3,1% milli ára.

Þar af skiluðu leigustarfsemi og fraktflutningar tekjum upp á 170,5 milljónir dala á árinu, sem nemur 23,5 milljörðum króna, sem eru tæplega 11% af heildartekjum félagsins á árinu.

Norski fluggreinandinn Hans Jørgen Elnæs telur að leigustarfsemin bjóði upp á mikla möguleika fyrir Icelandair á árinu. Á sama tíma ríki meiri óvissa um fraktflutninga og hvaða áhrif mögulegt tollastríð milli Evrópu og Bandaríkjanna geti haft á eftirspurn eftir vöruflutningum.

„Ég tel að leigustarfsemin verði arðbær fyrir félagið á næstu 3-5 árum, m.a. vegna töluverðrar biðar eftir afhendingu nýrra véla frá flugvélaframleiðendum. Á sama tíma er óvíst hvað mun koma út úr fraktstarfseminni vegna ytri aðstæðna. En heilt yfir tel ég stefnu Icelandair skynsama að setja ekki öll eggin í sömu körfuna.“

Icelandair fékk afhenta fyrstu Airbus A321LR vélina í desember og á félagið von á þremur sömu tegundar til viðbótar fyrir sumarið 2025.

Vélarnar eru 30% sparneytnari samanborið við fyrri kynslóð sambærilegra flugvéla og eru búnar Pratt & Whitney GTF hreyflum og er flugdrægi vélanna 4.000 sjómílur eða 7.400 kílómetrar. Þær munu því geta sinnt öllum áfangastöðum sem Boeing 757 vélar Icelandair hafa sinnt hingað til.

Þá undirritaði Icelandair samning við Airbus sumarið 2023 um kaup á allt að 25 A321XLR flugvélum. Samningurinn hljóðar upp á staðfesta pöntun á þrettán A321XLR flugvélum og kauprétt á tólf vélum sömu tegundar til viðbótar.

Afhending á vélunum hefst árið 2029 og hefur Icelandair sagt að endurnýjun flugflotans skapi tækifæri til þess að fljúga á nýja áfangastaði, en flugdrægni vélanna er 8.700 kílómetrar samanborið við 6.500 kílómetra drægni Boeing 737 MAX vélanna sem Icelandair hefur byggt sinn rekstur á í langan tíma.

Vélarnar opna á fleiri flugleiðir til Bandaríkjanna, bæði til suðurs og vesturs, til Mexíkó og svo Suður-Ameríku, en einnig Miðausturlanda, Norður-Afríku, Asíu og jafnvel Indlands.

„Þessar tvær flugvélategundir eru mjög sparsamar og losa minna af gróðurhúsalofttegundum og lækka þar með einingakostnað – sem þýðir að þær er hægt að nýta bæði fyrir núverandi leiðakerfi og mögulega nýja áfangastaði. Ef Icelandair vill síðan leigja út A321LR/XLR vélarnar lítur sá markaður vel út fyrir Icelandair næstu 3-5 árin, bæði fyrir árstíðabundnar leigur til skamms tíma og leigur til lengri tíma.“