Leikbreytir er stórhuga og stefnir félagið á opnun söluskrifstofu í Danmörku á næsta ári. Yngvi Tómasson, framkvæmdastjóri Leikbreytis, segir félagið stefna á mikinn vöxt á næstu árum og skoði því nú að ráðast í hlutafjáraukningu til að styðja við vöxt félagsins á erlendri grundu.

Fyrsta skrefið í átt að vexti á erlendri grundu var samstarfssamningur við kanadíska félagið Fobi AI sem gerir Fobi kleift að selja „Gift to wallet“ lausn Leikbreytis á sínum markaðssvæðum. Kanadíska félagið er með skrifstofur í fimm löndum og viðskiptavini í yfir 150 löndum.

„Við höfum átt í samstarfi við dótturfélög Fobi í um þrjú ár. Þessi samstarfssamningur snerist því að mestu um að formgera samstarfið enn frekar og gera þeim um leið kleift að selja vöruna okkar. Þar af leiðandi er „Gift to wallet“ lausnin okkar orðin hluti af þeirra vöruframboði með tilheyrandi vaxtarmöguleikum. Þetta samstarf tryggir vörunni okkar aðgang að markaðssvæðum og viðskiptavinum Fobi, sem er mjög mikilvægt fyrir okkur.“

Yngvi segir viðskiptamódel Leikbreytis einmitt ganga út á að vera í samstarfi við erlend félög sem sjái þá um sölu á aðgangi að „Gift to wallet“ lausninni, ásamt því að félagið selji lausnir sínar sjálft milliliðalaust til viðskiptavina víða um heim. „Við höfum frá upphafi hannað vöruna mikið í samstarfi við viðskiptavinina og því mikilvægt fyrir okkur að vera líka í beinum samskiptum við þá, en ekki bara í gegnum milliliði.“

Hann segir hugsunina á bakvið opnun söluskrifstofu í Danmörku fyrst og fremst snúast um að komast nær viðskiptavinum á meginlandinu. „Við höfum átt í viðræðum við nokkur smásölu fyrirtæki úti í Danmörku undanfarna mánuði og stefnum á að ganga frá samningum þar snemma á næsta ári. Við finnum fyrir miklum áhuga á „Gift to wallet“ lausninni og er þá mikið horft til þess sem við höfum gert með Kringlunni, Orkunni, S4S og fleiri fyrirtækjum hér á landi. Við sjáum fyrir okkur að setja upp söluskrifstofu í Danmörku til að komast inn á markaðinn í Skandinavíu, auk þess sem það er stutt þaðan inn á ýmis markaðssvæði á meginlandi Evrópu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.