Veitingastaðurinn Lemon, sem sérhæfir sig í samlokum og djúsum, hefur undirritað samning við Hagkaup um opnun þriggja nýrra staða í verslunum Hagkaups. Umræddir staðir verða staðsettir í Hagkaup Kringlunni, Skeifunni og Smáralind.
Með nýju stöðunum í Hagkaup verða Lemon staðirnir ellefu talsins, sjö staðir á höfuðborgarsvæðinu og þrír á Norðurlandi. Auk þess að opna í Hagkaup hefur Lemon nýlega opnaði staði á nokkrum þjónustustöðvum Olís.
Hagar, móðurfélag Bónus, Hagkaups og Olís, keypti 49% hlut í Djús, sem rekur veitingastaði Lemon, á síðasta ári.
„Við hjá Lemon leggjum áherslu á að mæta ólíkum þörfum okkar viðskiptavina með bragðgóðum og hollum samlokum og djúsum. Við erum mjög spennt fyrir nýju stöðunum í Hagkaup. Við teljum að viðskiptavinir eigi eftir að fagna því að eiga möguleika á að grípa með sér hollar og bragðgóðar samlokur og sólskín í glasi í fjölbreytt verkefni dagsins,“ segir Jóhanna Soffía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Lemon.
„Við erum gríðarlega spennt fyrir þessu samstarfi, við opnuðum Lemon í Garðabæ fyrir nokkru vikum og viðtökurnar hafa verið frábærar. Við erum því sannfærð að þrír nýir staðir eigi eftir að slá í gegn enda hollur og góður skyndibiti sem fellur vel að okkar framtíðarsýn og nýrri stefnu Hagkaups sem við erum að kynna til leiks þessa dagana,“ segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.