Dineout ehf. hefur innleitt nýja lausn á Hafnartorgi Gallery í samstarfi við Fasteignafélagið Heimar hf. en lausnin gerir gestum kleift að panta mat frá fleiri en einum veitingastað í einni og sömu pöntun, með einni greiðslu.

Með lausninni skanna gestir QR-kóða sem staðsettir eru á öllum borðum og fá þá upp úrval allra veitingastaðanna, ásamt myndum og upplýsingum.

Gestir geta síðan, með einni pöntun, pantað á mismunandi veitingastöðum og greitt alla upphæðina í einni og sömu greiðslu. Í tilkynningu segir að lausnin henti fjölskyldum og stærri hópum vel sem vilji greiða saman fyrir ólíka rétti.

„Þegar við fjölskyldan förum saman á Hafnartorg Gallery þá vill hver fá sitt. Mig langar í sushi, maðurinn minn fer beint í steik, eitt barnið vill pizzu og hitt dreymir um mexíkóskt. Eftir matinn langar okkur svo í eftirrétt og kaffi frá sitt hvorum stöðunum. Í stað þess að við séum öll á flakki á milli staða að panta og borga, þá setjum við þetta allt í eina pöntun og greiðum einu sinni,“ segir Inga Tinna Sigurðardóttir, forstjóri Dineout.

Þegar maturinn er tilbúinn fær viðkomandi SMS-skilaboð í símann og er auk þess hægt að fylgjast með stöðu pöntunarinnar í rauntíma á vefsíðunni.

Á næstu vikum verða einnig innleiddir nýir sjálfsafgreiðslukassar á Hafnartorgi Gallery sem munu bjóða upp á myndræna framsetningu, hraðari þjónustu og aukna sjálfvirkni.

„Það er ótrúlega gaman að taka þátt í svona tímamótaverkefni þar sem tæknin nýtist til að bæta bæði upplifun gesta og rekstrarlega hagkvæmni fyrir veitingaaðila. Við hjá Heimum erum gríðarlega stolt af því að taka þátt í þessari þróun í samstarfi við Dineout, sem hefur sannarlega sýnt fram á hvað íslenskt hugvit og hönnun getur gert,“ segir Sandra Arnardóttir, markaðsstjóri Smáralindar og Hafnartorgs.