Hagfræðingarnir Elísa Arna Hilmarsdóttir og Gunnar Úlfarsson munu taka við starfi Konráðs S. Guðjónssonar hjá Viðskiptaráði Íslands. Breytingar verða gerðar hjá Viðskiptaráði en í stað eins hagfræðings og sérfræðings á hagfræðisviði verða núna ráðnir inn tveir hagfræðingar sem munu bera jafna ábyrgð.

Elísa Arna er hagfræðingur að mennt með B.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands og hefur starfað sem sérfræðingur á hagfræðisviði hjá Viðskiptaráði Íslands síðan í haust. Áður starfaði hún sem hagfræðingur á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands en sinnti áður sumarstörfum hjá SL lífeyrissjóði og Arion banka auk dæmatímakennslu við Háskóla Íslands.

Gunnar Úlfarsson er einnig hagfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í hagfræði og fjármálum frá St. Andrews háskóla í Skotlandi. Hann starfaði áður hjá RR ráðgjöf, Samkeppniseftirlitinu og sem stundakennari við hagfræðideild Háskóla Íslands.