Millibankavextir í Bandaríkjadal, Libor-vextir, hækkuðu mikið í dag. Frá þessu er sagt í Vegvísi Landsbankans, en greiningardeild bankans telur að tvær ástæður liggi að baki hækkuninni. Annars vegar áhyggjur fjárfesta vegna óvissu um neyðaraðgerðir ríkisstjórnar Bandaríkjanna og hins vegar nálgast ársfjórðungsmót og bankar hanga því fastar á lausafé sem býðst til að sýna fram á styrka stöðu sína við birtingu næsta árshlutauppgjörs.

„Libor vextir til þriggja mánaða hafa ekki hækkað hraðar síðan árið 1999 að því er fram kemur í frétt á Bloomberg. Um leið hefur svokallað Ted Spread, sem mælir muninn á 3 mánaða millibankavöxtum og ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa til jafnlangs tíma, aldrei verið hærra. Það mælist nú 316 punktar en var 114 punktar fyrir einungis mánuði síðan. Athygli vekur að þetta er hærra álag en í síðustu viku þegar Lehman Brothers varð gjaldþrota og tryggingarfélagið AIG rambaði á barmi gjaldþrots,“ segir í Vegvísi.