Markaðsvirði útgerðarfélaganna þriggja sem eru skráð í Kauphöllina – Brims, Síldarvinnslunnar og Ísfélagsins – hefur lækkað um 74 milljarða króna, úr 404 milljörðum í 331 milljarð króna frá því að atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra kynntu fyrst áform um hækkun veiðigjalda í mars.
Ragnar M. Gunnarsson benti á þetta í færslu á samfélagsmiðlinum X í gær og bætti við að sé þessi staða yfirfærð á atvinnugreinina í heild sinni megi áætla að virði sjávarútvegsfélaga hafi lækkað um 230 milljarða króna eða sem samsvarar um 5% af vergri landsframleiðslu 2024.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, gerir þessa útreikninga Ragnars að umfjöllunarefni í aðsendri grein á Vísi sem ber fyrirsögnina „Í nafni „sanngirni“ brenndi ríkisstjórn 230 milljörðum – lífeyrir landsmanna fór á bálið“.
„Meðal þess sem haldið var fram var að málið snerist um 5 fjölskyldur. Þetta fullyrtu talsmenn ríkisstjórnar vitandi að áætluð eignarhlutdeild lífeyrissjóða í Brim er um 38%, Ísfélaginu um 11% og 24% í Síldarvinnslunni,“ segir Elliði og vísar þar í ummæli Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra í Kastljósinu þann 23. júní síðastliðinn.
„Nú liggur fyrir að bara tjón lífeyrissjóða vegna eignarhalds þeirra í þessum þremur skráðu sjávarútvegsfyrirtækjum nema 18 milljörðum frá 24. mars á þessu ári. Sanngirni ríkisstjórnar er því lífeyrisskerðing almennings. Það sem ríkisstjórn kallar „sérhagsmuni“ eru meðal annars lífeyrisréttindi almennings og atvinnuöryggið á landsbyggðinni.“
Elliði setur ofangreinda áætlaða virðisrýrnun sjávarútvegsfélaga upp á 5% af VLF í samhengi við það hlutfall sem NATÓ-ríki stefni að því að verja í varnarmál.
„Mér er til efs að slíkt eigi sér sögulega viðlíkingu á friðartímum. Gleymum ekki að verið er að undirbúa fleiri skaðleg frumvörp. Dettur einherjum í hug að vaxtalækkunarferlið haldi áfram?“