Lífland hagnaðist um 307 milljónir króna árið 2024, samanborið við 78 milljóna króna hagnað árið 2023. Stjórn samstæðunnar lagði til að hagnaður ársins verði yfirfærður til næsta árs.
Lífland er sérhæfir sig í framleiðslu á fóðri, sölu á rekstrarvörum til landbúnaðar og sölu á Kornax hveiti. Fyrirtækið rekur sex sérverslanir fyrir bændur og hestamenn víðsvegar um landið.
Velta samstæðunnar jókst um 381 milljón eða 4,1% milli ára. Veltuaukningin er að stærstum hluta rakin til aukinnar framleiðslu og sölu á kjarnfóðri auk þess sem eggjasala jókst milli ára. Rekstrarhagnaður (EBIT) jókst úr 661 milljón í 990 milljónir milli ára.
„Hátt vaxtastig hélt áfram að setja strik í reikninginn í rekstrinum á Íslandi auk þess sem verðbólga var enn há á fyrri hluta ársins en aðhald í rekstrarkostnaði og í innkaupum hélt í við hækkanir,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins.
Í nóvember varð brunatjóna á hluta af fasteign dótturfélagsins Nesbúeggja að Vatnsleysuströnd. Greint var frá því að um sex þúsund fuglar drápust í brunanum. Í skýrslu stjórnar, sem var undirrituð 10. mars sl., kemur fram að endurbygging sé hafin og að félagið sé tryggt vegna tjónsins.
Eignir Líflands voru bókfærðar á 9,4 milljarða króna og eigið fé var tæplega 2,5 milljarðar króna.
Þórir Haraldsson á allt hlutafé Líflands. Í mars síðastliðnum var tilkynnt um að Þórir, sem átti fyrir helmingshlut, hefði keypti 50% hlut framtakssjóðsins Horns III í Líflandi og þar með eignast félagið að fullu.