Framkvæmdastjóri og sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins (SI) segja ákvörðun Einars Þorsteinssonar borgarstjóra um að slíta meirihlutasamstarfinu, m.a. vegna stefnu í húsnæðis- og skipulagsmálum, „líklega bestu fréttir sem ríkisstjórnin gat fengið úr Reykjavík þar sem með því skapast tækifæri til að gera betur í þessum málum“.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, og Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs samtakanna, á Vísi.
Gagnrýna meirihlutann harðlega
Sigurður og Jóhanna Klara segja það vera staðreynd að stefna meirihlutans í Reykjavík í skipulagsmálum undanfarinn áratug hafi haft afgerandi áhrif á efnahagsmál á Íslandi, enda stærsta sveitarfélag landsins.
„Landsmönnum hefur fjölgað verulega en íbúðauppbygging í Reykjavík hefur ekki haldið í við vöxt og viðgang samfélagsins. Því til viðbótar hefur uppbyggingin verið kostnaðarsöm og ekki mætt fjölbreyttum þörfum íbúa. Þessi stefna hefur átt stóran þátt í mikilli verðbólgu og háum vöxtum sem kemur við hvert einasta heimili landsins og hvert einasta fyrirtæki.“
Þau segja að þótt nægt land sé í Reykjavík undir íbúðabyggð hafi meirihlutinn „með skammsýni og kreddum í skipulagsmálum“ skammtað lóðir úr hnefanum undanfarin ár. Á sama tíma hafi gjaldtaka borgarinnar einnig stóraukist sem skili sér í hærra verðlagi íbúða.
„Stærsta sveitarfélag landsins og eina borgin ætti að fara á undan með góðu fordæmi en því hefur verið öfugt farið og hafa nágrannasveitarfélög vaxið hlutfallslega hraðar. Þegar á þarf að halda er verktökum kennt um tafir á uppbyggingu þegar öllum er ljóst að borgaryfirvöld nýta sér upplýsingaóreiðu sér í vil. Þessu þarf að breyta.“
Nái ekki markmiðum sínum ef sjónarmið Samfylkingar og Pírata ráða för
Sigurður og Jóhanna Klara telja að fyrri ríkisstjórn hafi áttað sig á vandanum þegar kemur að húsnæðis- og skipulagsmálum en ekki tekist að fá sveitarfélögin í lið með sér.
Ný ríkisstjórn átti sig einnig á því hvernig vandinn er vaxinn og hafi áform um stórátak í íbúðauppbyggingu. Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins hafi allir talað fyrir aukinni uppbyggingu íbúða í aðdraganda þingkosninga í lok síðasta árs, sem endurspeglist í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hún bendi til þess að horft verði til fjölbreyttrar uppbyggingar en ekki bara til félagslegra íbúða.
„Til þess að metnaðarfull og um leið nauðsynleg áform ríkisstjórnarinnar gangi eftir þarf borgarstjórn Reykjavíkur, stærsta sveitarfélags landsins, að hraða úthlutun lóða og endurskoða stefnu sína í húsnæðis- og skipulagsmálum. Ríki og borg þurfa að ganga í takt en þar sem skipulagsvaldið er hjá Reykjavíkurborg þá ræður borgin för.
Ef marka má orð borgarstjóra liggur fyrir að stefna Samfylkingar og Pírata í Reykjavík hefur ekki stutt við aukna og hagkvæma uppbyggingu íbúða. Meðan slík sjónarmið ráða för við stjórn Reykjavíkurborgar er ljóst að ríkisstjórnin mun hvorki ná markmiðum sínum í húsnæðismálum né í efnahagsmálum til lengri tíma litið.“
Fyrir vikið lýsa Sigurður og Jóhanna Klara ákvörðun Einars um að slíta meirihlutasamstarfinu sem líklega bestu fréttum sem ríkisstjórnin gat fengið úr Reykjavík. Þau segja skýrt ákall um að forystufólk borgarinnar hafi ofangreind atriði í huga við myndun nýs meirihluta.
„Nú er lag að skipta um kúrs og auka uppbyggingu fjölbreyttra íbúða í Reykjavík i takt við stefnu ríkisstjórnarinnar. Aðgerðir borgarinnar til þess að hraða húsnæðisuppbyggingu geta ekki beðið. Til að byggja fleiri íbúðir þarf að skipuleggja meira og hraðar, einfaldlega leyfisveitingaferli og auka samstarfsviðleitni við byggingaraðila.
Nýr meirihluti Reykjavíkurborgar, hver sem hann verður, hefur tækifæri til að sanna að hann hefur skilning á alvöru málsins og sýna ákveðni í verki. Skýr stefna og skjót viðbrögð eru ekki bara æskileg heldur nauðsynleg.”