Greiningardeildir bankanna spá allar talsverðri hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum. Landsbankinn, Íslandsbanki og Kvika banki spá því að verðbólga verði á bilinu 4,5-4,7% í nóvember en til samanburðar mældist hún 5,1% í október.
Hagfræðideild Landsbankans og Greining Íslandsbanka spá að verðbólga verði komin niður fyrir 4% efri vikmörk Seðlabankans í febrúar, sem yrði þá í fyrsta sinn frá ársbyrjun 2021 sem hún væri innan vikmarka Seðlabankans. Hagfræðideild Landsbankans spáir 3,5% verðbólgu í febrúar og Greining Íslandsbanka 3,7%.
Verðbólguspá Kviku banka er ekki jafn bjartsýn en hún gerir ráð fyrir að verðbólga muni mælast 4,2% í febrúar.
Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga í nóvember verði 4,5% og hjaðni því um 0,6 prósentur milli mánaða. Flugfargjöld til útlanda og reiknuð húsaleiga komi til lækkunar að þessu sinni, en húsnæði án reiknaðrar húsaleigu til hækkunar. Í grein á vef bankans í dag er fjallað um af hverju bankinn telur að verðbólgan verði komin undir 4% í febrúar.
Greining Íslandsbanka spáir einnig að verðbólga muni mælast 4,5% í nóvember. Tilboðsdagar í hinum ýmsu verslunum muni hafa áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs ásamt lægri flugfargjöldum og lækkandi húsnæðiskostnaði. Á móti vegi helst hærra verð á matar- og drykkjarvörum.
Í verðbólguspá sem Kvika banki gaf út í morgun spáir aðalhagfræðingur bankans, Hafsteinn Hauksson, að ársverðbólga lækki úr 5,1% í 4,7% milli mánaða.
„Í mánuðinum vegast á hækkun húnsæðisliðarins og árstíðabundin lækkun flugfargjalda. Aðrir liðir breytast minna. Aðrir liðir breytast minna, en við eigum von á nokkuð kraftminni hækkunum í innfluttum vörum en í sama mánuði fyrra árs vegna styrkingar krónunnar og hugsanlegra áhrifa einhleypingsdagsins (e. singles day) sem féll innan verðmælingarviku þetta árið,“ segir í verðbólguspá Kviku.
„Stærsta breytingin í árstakti verðbólgunnar leiðir af húsnæðisverði að þessu sinni, en óvenjuleg hækkun liðarins í sama mánuði fyrra árs dettur út úr tólf mánaða takti vísitölunnar nú.“
Bráðabirgðaspá Kviku gerir ráð fyrir að verðbólga staðnæmist nærri 4,7-4,8% fram í janúar. Hins vegar lækki verðbólgan skarpt í febrúar samhliða því að óvenjustórar hækkanir bæði opinberra gjalda og flugfargjalda detta út úr tólf mánaða takti verðbólgunnar.