Líkur eru á að Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi, muni fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) en hann dæmdur í sex mánaða fangelsi, bundnu almennu skilorði til tveggja ára, með dómi Hæstaréttar síðastliðinn fimmtudag. Hörður Felix Harðarson, verjandi Júlíusar, segir að dómur Hæstaréttar kunni að óbreyttu að hafa víðtæk og ófyrirséð áhrif.
Júlíusi var gefið að sök peningaþvætti, svokallað sjálfsþvætti, með því að hafa haft í vörslum sínum á erlendum bankareikningum andvirði 131-146 milljónir króna. Þar voru á ferð umboðslaun sem höfðu orðið til í tengslum við rekstur bifreiðaumboðsins Ingvars Helgasonar.
Af hálfu saksóknara var talið að umræddir fjármunir hefðu orðið til við skattalagabrot á árunum 1982-1993 en óumdeilt var að þau væru fyrir löngu fyrnd. Einnig var óumdeilt að umrædd varsla fjármunanna var ekki refsiverð þar til í byrjun árs 2010 en þá tók gildi breyting á hegningarlögunum sem gerði sjálfsþvætti refsivert. Eftir stóðu einkum tvær spurningar, annars vegar um mögulega afturvirkni refsiákvæðisins og hins vegar hvenær afleidda háttsemin, sjálfsþvættið, teldist fyrnd.
„Stutta svarið við því hvort það standi til að leita til MDE er já. Það er mun líklegra en ekki að málið verði sent út. Að okkar mati er hér á ferð stórt, fordæmisgefandi mál. Í því sambandi er vert að hafa í huga að fjöldi þeirra mála sem hafa fallið á tímafrestum í skattkerfinu síðastliðna áratugi er án nokkurs vafa umtalsverður. Af þessum dómi virðist ljóst að það sé hægt að taka þau mál upp, svo framarlega sem gögn séu enn til staðar og skattaðilinn hafi ekki orðið gjaldþrota, og ákæra fyrir peningaþvætti. Þar gildir þá einu þótt málin séu orðin 20-30 ára gömul eða enn eldri. Það verður fróðlegt að sjá hvort ráðist verði í þessa vegferð en þegar horft er til jafnræðisreglna þá getur vart verið að umbjóðandi minn verði sá eini sem sæti slíkri meðferð. Ég tel mjög mikilvægt að fá úr þessu skorið,“ segir Hörður Felix.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .