LinkedIn, dótturfyrirtæki Microsoft, mun skera niður 960 störf eða um 6% af vinnuafli sínu vegna minni eftirspurnar í ráðningarþjónustu fyrirtækisins í kjölfar heimsfaraldursins.

Ryan Roslansky, forstjóri LinkedIn, segir að uppsagnirnar verða í sölu- og ráðningardeildum (e. talent acquisition teams) fyrirtækisins en það ætli ekki að ráðast í frekari uppsagnir að hans sögn.

Helsta tekjulind tæknifyrirtækisins, sem hefur höfuðstöðvar í Kaliforníu, eru auglýsingar og þóknanir frá fyrirtækjum í leit að starfsfólki. Færri fyrirtæki eru að ráða í sama magni og í fyrra ástandi, samkvæmt Rolansky. „LinkedIn er ekki ónæmt fyrir áhrifum heimsfaraldursins,“ skrifar hann á heimasíðu fyrirtækisins .

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum hefur náð sögulegum hæðum á síðustu mánuðum og var um 11,1% í júní. Áður en kórónaveiran náði útbreiðslu hafði atvinnuleysi verið í 50 ára lægð eða um 3,5%, samkvæmt frétt WSJ .