Líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað um taldi Eim­skip fjöl­marga ann­marka á rann­sókn Sam­keppnis­eftir­litsins á Eim­skip og Sam­skip vegna meintra sam­ráðs­brota á árunum eftir hrun.

Eim­skip endaði á að gera sátt í málinu og lagði SKE 4,2 milljarða króna stjórn­valds­sekt á Sam­skip sem neitaði sök.

Í and­mælum Eim­skips fyrir sáttina sakar skipa­fé­lagið SKE meðal annars um lög­brot með því að gefa út tvö and­mæla­skjöl, krefjast svara við á­sökunum áður en þær eru að fullu komnar fram og áður en að fé­lagið hafi fengið aðgang að gögnum máls.

Þegar öll gögn voru á endanum af­hent kom ýmis­legt í ljós í rann­sókn eftir­litsins á meintu sam­ráði Eim­skips og Samskipa á árunum eftir hrun.

Í and­mæla­skjali sem Sam­keppnis­eftir­litið sendi Eim­skip er því haldið fram að innan­hús­gögn Sam­skipa sýni fyrir­ætlanir um 35% verð­hækkun og segir eftir­litið að það sé til marks um ætlað sam­ráð.

Um skýrt grín að ræða

Sam­keppnis­eftir­litið segir að á­stæða þess að Sam­skip töldu sér fært að „ráðast í 35% hækkun“ á gjald­skrám inn- og út­flutnings hafi verið hið ætlaða sam­ráð við Eim­skip.

„Þessi á­lyktun er með miklum ó­líkindum,“ segir í and­mælum Eim­skips þar sem sam­tíma­gögn sýna „skýrt að um grín“ var að ræða í við­komandi innan­hússam­skiptum. Engin slík hækkun átti sér stað eða var undir­búin.

Sam­keppnis­eftir­litið lét Eim­skip einungis hafa hluta hins til­vitnaða tölvu­pósts í and­mæla­skjalinu en þegar tölvu­pósturinn er skoðaður í heild er frekar ljóst að um grín hafi verið að ræða, en hann hljóðar svo:

„Við urðum sem sagt sam­mála um margt og mikið á þessum fundi, m. a: -í­grunda kaup á Ís­lands­pósti og sam­einingu við Póst­markaðinn-35% hækkun á gjald­skrám inn- og út­flutnings­kaup á skipum og jafn­framt að [nafn starfs­manns] myndi sjá um að dressa okkur upp fyrir græna daginn á föstu­daginn!“

„Gera verður meiri kröfur til stjórn­valds um hlut­lægnis­skyldu“

„Vart þarf að fjöl­yrða um að ber­sýni­lega virðist þannig vera um grín að ræða, enda ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að Sam­skip hafi í­hugað kaup á Ís­lands­pósti eða sam­einingu við Póst­markaðinn. Þá eru engar vís­bendingar um að kaup á skipum hafi staðið til, fremur en raunar 35% verð­hækkun. Átti enda engin 35% verð­hækkun sér stað. Gera verður meiri kröfur til stjórn­valds um hlut­lægnis­skyldu en birtist í þessari fram­setningu,“ segir í and­mælum Eim­skips.

Sem fyrr segir játaði Eim­skip ári síðar og undir­ritaði sátt við eftir­litið.

Hörður Felix Harðar­son lög­maður Sam­skipa hefur meðal annars sakað Eim­skip um að hafa gert þetta til að kaupa sig frá málinu og út­rýma ó­vissu en Eim­skip er skráð fé­lag á markaði.

Þann 15. júní 2021, degi áður en sáttin var undir­rituð, var dagsloka­gengi Eim­skips 286 krónur. Dagsloka­gengi Eim­skips þann 16. júlí 2021, mánuði eftir að sátt fékkst í málið, var gengið 404 krónur sem er rúm­lega 41% hækkun á einum mánuði.

Eim­skip, sem er markaðs­ráðandi í sjó­flutningum á Ís­landi, gat einnig gengið að því vísu að eftir­litið myndi skella mun hærri sektar­fjár­hæð á Sam­skip í kjöl­farið.