Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir að félagið hafi ekki fallið frá áformum um að efla ljósleiðaranet hringinn í kringum landið. Hátt vaxtastig hafi hins vegar leitt til þess að dýrt sé að ráðast í innviðafjárfestingar og félagið sé því að hreyfa sig í takt við markaðsaðstæður.

„Við erum svolítið, eins og mörg önnur íslensk fyrirtæki, að bíða af okkur vaxtastorminn. Við erum þó klár að fara hratt af stað þegar aðstæður breytast,“ segir Einar.

Í nýrri fjárhagsspá Orkuveitunnar, móðurfélags Ljósleiðarans, kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir nýjum heimilistengingum hjá Ljósleiðaranum í sveitarfélögum öðrum en þeim sem þegar er þjónað. Ljósleiðarinn tilkynnti fyrr í ár um að dregið yrði úr fjárfestingum félagsins.

Einar, sem tók við sem framkvæmdastjóri Ljósleiðarans fyrir rúmu ári síðan, segir að félagið hafi að undanförnu verið að endurmeta og forgangsraða fjárfestingarkostum.

Niðurstaða þess ferlis hafi verið að fresta ýmsum fjárfestingum, annars vegar vegna mats á eftirspurn og hins vegar vegna markaðsaðstæðna. Hátt vaxtastig geri það að verkum að fjárfestingar í innviðum sem þessum taki þeim mun lengri tíma að skila sér til baka.

Einar segir Ljósleiðarann í raun bíða færis til að fara af stað í endurnýjun ljósleiðaraþráða um landið. Það ráðist helst af fjármagnskostnaði og eftirspurn stórra kaupenda.

Ljósleiðarinn vinnur nú að endurfjármögnun skulda á grunni breyttra áforma um fjárfestingar. Það kemur til með að búa til ákveðinn rekstrarlegan grundvöll til næstu ára, að sögn Einars.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Þar ræðir Einar nánar um hugmyndir félagsins um endurnýjun ljósleiðaraþráða um landið og áformaða hlutafjáraukningu félagsins sem er nú til endurskoðunar.