Miklar lækkanir voru í Kaup­höllinni í dag en út­gerðar­fé­lögin þrjú hækkuðu ör­lítið eftir þó­nokkrar lækkanir síðast­liðinn mánuð. Gengi Ís­fé­lagsins fór upp um tæp 2% á meðan gengi Síldar­vinnslunnar fór upp um rúmt 1% sam­hliða því að gengi Brims fór upp um tæpt 1%.

Haf­rann­sókna­stofnun til­kynnti um mögu­lega loðnu­göngu fyrir suð­austan land í dag en síðast­liðna viku hefur mælst afar lítið af loðnu í annarri yfir­ferð loðnu­mælinga á árinu.

Sam­kvæmt Haf­ró tóku ís­lensk upp­sjávar­veiði­skip að sér að sigla eftir á­kveðnum leiðar­línum til og frá kol­munna­veiðum suður af Fær­eyjum með það mark­miði að vakta loðnu­miðin.

„Það bar árangur strax á fyrsta degi þegar Svanur RE rakst á torfur suð­austur af landinu í gær, 13. febrúar, á suður­hluta Rauða­torgsins. Veiði­skipin Hákon EA og Hof­fell SU fóru um kvöldið 10 sjó­mílur sunnan og norðan við það svæði og urðu einnig vör við lóðningar,“ segir í til­kynningu Haf­ró.

Sýn og Eimskip lækkuðu í milljarðs veltu

Hluta­bréf Sýnar leiddu lækkanir á markaði er gengi fjöl­miðla­fyrir­tækisins fór niður um rúm 3% í 526 milljón króna veltu en fé­lagið sendi frá sér nei­kvæða af­komu­við­vörun eftir lokun markaða í gær.

Sýn til­kynnti markaðinum um að fé­lagið hafi á­kveðið að gjald­færa ein­skiptis­liði upp á um 840 milljónir króna á árinu 2023 og segir í af­komu­við­vörun að þetta muni hafa af­gerandi á­hrif á af­komu ársins í árs­upp­gjöri fé­lagsins. Hluta­bréf Sýnar hafa farið úr 47,6 krónum í 44,6 krónur síðast­liðinn mánuð.

Hluta­bréf í Eim­skip lækkuðu um tæp 6% en fé­lagið birti árs­upp­gjör eftir lokun markaða sem sýndi tekju- og hagnaðar­sam­drátt á árinu, sér í lagi á fjórða árs­fjórðungi. Gengi Eim­skips hefur lækkað úr 471 krónu í 400 krónur síðast­liðinn mánuð.

Play hækkar um 22%

Gengi fjár­festinga­fé­lagsins Skeljar lækkaði einnig um rúm 3% á meðan hluta­bréf í Icelandair fóru niður um rúm 2%.

Á First North markaðinum tók gengi Play við sér að nýju eftir miklar lækkanir í kjöl­far árs­upp­gjörs. Hluta­bréf í flug­fé­laginu hækkuðu um 22,5% í 45 milljón króna við­skiptum og var dagsloka­gengið 4,5 krónur. Gengi Play fór um tíma niður um 3,5 í gær og lokaði í 4 krónum en það stóð í tæpum 8 krónum fyrir tæpum mánuði síðan.

Um 45 milljón króna velta var með bréf Play í dag sem er tölu­vert meira en gerist og gengur á venju­legum við­skipta­degi. Heildar­velta á aðal­markaði var 4,1 milljarður og lækkaði úr­vals­vísi­talan um 0,47%.