Miklar lækkanir voru í Kauphöllinni í dag en útgerðarfélögin þrjú hækkuðu örlítið eftir þónokkrar lækkanir síðastliðinn mánuð. Gengi Ísfélagsins fór upp um tæp 2% á meðan gengi Síldarvinnslunnar fór upp um rúmt 1% samhliða því að gengi Brims fór upp um tæpt 1%.
Hafrannsóknastofnun tilkynnti um mögulega loðnugöngu fyrir suðaustan land í dag en síðastliðna viku hefur mælst afar lítið af loðnu í annarri yfirferð loðnumælinga á árinu.
Samkvæmt Hafró tóku íslensk uppsjávarveiðiskip að sér að sigla eftir ákveðnum leiðarlínum til og frá kolmunnaveiðum suður af Færeyjum með það markmiði að vakta loðnumiðin.
„Það bar árangur strax á fyrsta degi þegar Svanur RE rakst á torfur suðaustur af landinu í gær, 13. febrúar, á suðurhluta Rauðatorgsins. Veiðiskipin Hákon EA og Hoffell SU fóru um kvöldið 10 sjómílur sunnan og norðan við það svæði og urðu einnig vör við lóðningar,“ segir í tilkynningu Hafró.
Sýn og Eimskip lækkuðu í milljarðs veltu
Hlutabréf Sýnar leiddu lækkanir á markaði er gengi fjölmiðlafyrirtækisins fór niður um rúm 3% í 526 milljón króna veltu en félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun eftir lokun markaða í gær.
Sýn tilkynnti markaðinum um að félagið hafi ákveðið að gjaldfæra einskiptisliði upp á um 840 milljónir króna á árinu 2023 og segir í afkomuviðvörun að þetta muni hafa afgerandi áhrif á afkomu ársins í ársuppgjöri félagsins. Hlutabréf Sýnar hafa farið úr 47,6 krónum í 44,6 krónur síðastliðinn mánuð.
Hlutabréf í Eimskip lækkuðu um tæp 6% en félagið birti ársuppgjör eftir lokun markaða sem sýndi tekju- og hagnaðarsamdrátt á árinu, sér í lagi á fjórða ársfjórðungi. Gengi Eimskips hefur lækkað úr 471 krónu í 400 krónur síðastliðinn mánuð.
Play hækkar um 22%
Gengi fjárfestingafélagsins Skeljar lækkaði einnig um rúm 3% á meðan hlutabréf í Icelandair fóru niður um rúm 2%.
Á First North markaðinum tók gengi Play við sér að nýju eftir miklar lækkanir í kjölfar ársuppgjörs. Hlutabréf í flugfélaginu hækkuðu um 22,5% í 45 milljón króna viðskiptum og var dagslokagengið 4,5 krónur. Gengi Play fór um tíma niður um 3,5 í gær og lokaði í 4 krónum en það stóð í tæpum 8 krónum fyrir tæpum mánuði síðan.
Um 45 milljón króna velta var með bréf Play í dag sem er töluvert meira en gerist og gengur á venjulegum viðskiptadegi. Heildarvelta á aðalmarkaði var 4,1 milljarður og lækkaði úrvalsvísitalan um 0,47%.