Gengi hlutabréfa lyfjafyrirtækisins Terns Pharmaceuticals hækkaði um 30% í byrjun vikunnar í kjölfar tilkynningar um að prófanir á þyngdarstjórnunarlyfi félagsins í töfluformi hafi komið vel út.
Þannig kom í ljós við fasa eitt í prófunum allt að 5,5% þyngdartap á 28 daga tímabili. Alls 67% þátttakenda sem fengu hámarksskammt af lyfinu í prófuninni missti yfir 5% af líkamsþyngd sinni á tímabilinu.
Niðurstaðan undirstrikar að sögn Amy Burroughs, framkvæmdastjóra Terns, möguleika félagsins á að ná markaðsráðandi stöðu á þyngdarstjórnunarlyfjamarkaðnum.
Að einhverra mati felast mikil tækifæri í kaupum á hlutabréfum í félaginu en þegar þetta er skrifað stendur gengi bréfa félagsins í 7,81 dal á hlut og nemur markaðsvirði 591 milljón dala.