„Á sama tíma og róðurinn er þungur er gott að vera Íslendingur á golfvöllunum á Spáni og í Flórída. Frasarnir á fjármálamarkaði eru þeir sömu og voru fyrir 20 árum. Það eru fáir á fjármálamarkaði nú sem unnu á íslenskum fjármálamarkaði fyrir 20 árum og enn færri í efnahagsgreiningu og á skuldabréfamarkaði,“ segir í viðauka nýs verðmats Jakobsson Capital á laxeldisfyrirtækinu Kaldvík, þar sem sjónum er beint að háu raungengi krónunnar og samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækjanna hér á landi. Bent er á að raungengi krónunnar sé nú á svipuðum slóðum og það var rétt fyrir bankahrun.

„Þótt vissulega hafi komið einn og einn mánuður á síðustu árum þar sem raungengið hefur verið svipað og nú. Gengið hefur þó ávallt veikst jafnharðan aftur. Það virðist fátt vinna með sterku gengi krónunnar til lengri tíma þótt til skamms tíma getur spákaupmennska styrkt gengi krónunnar verulega. Þótt blikur séu á lofti er mjög ólíklegt að jafn hröð og mikil gengisveiking verði líkt og var í aðdraganda bankahrunsins.  Erlend staða þjóðarbúsins er allt önnur nú en var fyrir tæplega 20 árum.“

Þrátt fyrir það sé erfitt að sjá hvaða raunstærðir eigi að styrkja nafngengi krónunnar nema loft, skýjaborgir og norðurljósin. „Það eru ekki aukin verðbólga og yfirvofandi launahækkanir og spenna á vinnumarkaði. Hvað þá aflaheimildir loðnu, „aflabrestur“ í bolfiski, samdráttur í framboði flugferða til Íslands eða afleiðingar tollastríðs sem hefur t.d.  afleidd áhrif á iðnaðarframleiðslu líkt og ál- og málmvinnslu,“ segir í viðaukanum í verðmati Jakobsson Capital á Kaldvík.

Ísland líklega dýrasta land í Evrópu

Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur gaf nýverið út greiningu þar sem bent er á að raungengið sé nú með því hæsta sem sést hefur á þessari öld. Staðan sé orðin svo skökk að Ísland sé líklega orðið dýrasta land í Evrópu, með hærra verðlag og laun en flest önnur þróuð ríki. Krónan hafi styrkst um 5% gagnvart evru og 12% gagnvart Bandaríkjadal síðastliðið ár, ofan á þá hækkun sem þegar hafði átt sér stað í raungengi vegna þrálátrar verðbólgu og meiri launahækkana hér á landi en í viðskiptalöndunum. Samkvæmt mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé gengi krónunnar nú um 15% yfir því sem teljist viðunandi til lengri tíma litið.

„Krónan hefur aðeins tvisvar verið álíka sterk eða sterkari á þessari öld,“ skrifar Konráð og bætir við að þetta geti „ekki endað nema á einn veg“.

Hann bendir á að áhrifin af styrkingunni fari þegar að koma fram, meðal annars í versnandi rekstrarafkomu flugfélaga og ört vaxandi vöruskiptahalla. Þó að erfitt sé að tímasetja næstu vendingar telur Konráð líklegt að styrking krónunnar verði ekki varanleg. „Ef ástandið varir lengi getur það haft verulega skaðleg áhrif á útflutningsgreinar og jafnvægi þjóðarbúsins.“

Hann varar við hugsunarhætti sem oft kemur fram í aðdraganda óstöðugleika og bóluhegðunar: „This time is diferent.“ Slíkar fullyrðingar standist sjaldnast skoðun þegar litið sé til undirliggjandi hagstærða og viðskiptajöfnuðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.