Tölvuleikurinn Roblox hefur tilkynnt að lokað verði fyrir spjallkerfi leiksins fyrir notendur sem eru yngri en 13 ára. Börn munu því ekki geta sent skilaboð til annarra notenda í leiknum án þess að fá samþykki frá foreldrum eða forráðamönnum.

Foreldrar munu einnig geta skoðað og stjórnað reikningi barnsins síns ásamt því að sjá lista yfir vini þeirra og munu jafnframt geta sett takmarkanir á leiktíma.

Roblox er einn vinsælasti tölvuleikur í heimi meðal barna en leikjaframleiðendur hafa verið undir miklum þrýstingi að gera leikinn öruggari fyrir börn. Fyrirtækið segir að breytingarnar muni hefjast í dag og að þær verði að fullu innleiddar fyrir lok mars 2025.

Börn munu hins vegar enn hafa aðgang að opinberum spjallrásum sem allir í leiknum geta séð en munu ekki geta átt einkasamtöl án þess að fá samþykki frá foreldrum.