Loksins Bar á Keflavíkurflugvelli hefur opnað í suðurbyggingu vallarins og heitir nú Loksins Café & Bar. Endurbætta útgáfan var hönnuð af HAF Studio og segir í tilkynningu að hann bjóði nú upp á betri hljóðvist og stemningu.
Auk drykkja býður Loksins Café & Car einnig upp á fjölbreyttan matseðil með bakkelsi, morgunverðarskálum, salötum, ciabatta og heitum réttum.
Yfirmatreiðslumaður Loksins Café & Bar, Semjon Karopka, hefur margra ára reynslu úr veitingageiranum á Íslandi. Hann er meðal annars eigandi og yfirkokkur á veitingastöðunum Pronto Pasta í Borg29 mathöll og Hipstur í Gróðurhúsinu í Hveragerði.
„Það hefur verið tilhlökkunarefni að opna Loksins Café & Bar aftur á flugvellinum í nýrri mynd og ég er mjög stoltur af þeim matseðli sem við bjóðum gestum flugvallarins upp á. Lögð er áhersla á íslenskt hráefni og við höfum verið að þróa nýja rétti og bjóðum upp á girnilegt úrval í bæði mat og drykk þannig að allir ættu að geta fengið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Semjon.
Loksins Bar opnaði fyrst árið 2015 á Keflavíkurflugvelli og var hannaður af HAF Studio í samstarfi við Hjalta Karlsson og hönnunarstofu hans Karlssonwilker. Upphaflega hugmyndin var að endurskapa reykvíska barstemningu og kynna íslenskar hefðir í mat, drykk og menningu fyrir erlendum ferðamönnum.