Lucinity og Creditinfo hafa undirritað samstarfssamning sem miðar að því að gögn og lausnir Creditinfo verði aðgengilegar í viðmóti Lucinity. Hug­búnaðarlausn Luc­inity nýt­ir nýj­ustu tækni í gervi­greind til að greina peningaþvætti og leysa úr slíkum málum.

Í tilkynningu segir að samstarfið muni auðvelda fjármálafyrirtækjum að nálgast áreiðanleg gögn til að sjálfvirknivæða framkvæmd áreiðanleikakanna.

Guðmundur Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Lucinity, segir samstarfið vera liður í því að svara kalli viðskiptavina.

„Með samstarfinu við Creditinfo náum við að samþætta gögn og lausnir þeirra við okkar viðmót svo að starfsmenn í regluvörslu geti einbeitt sér að því að greina gögn frekar en að eyða tíma í að safna þeim saman.“

Creditinfo sérhæfir sig í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga, fjölmiðlavöktun og ráðgjöf á áhættumati og áhættustýringu fyrirtækja.

„Markmið Creditinfo er að stuðla að upplýstri ákvörðunartöku í krafti gagna. Við trúum því að framkvæmd áreiðanleikakannana eigi ekki að vera flókin. Með þessu samstarfi við Lucinity náum við að koma áreiðanlegum gögnum beint til viðskiptavina svo þeir eigi auðveldara með að taka upplýstar ákvarðanir,“ segir Hrefna Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.