Faxar ehf., eigandi Lyfja og heilsu hf., hagnaðist um 317 milljónir króna á síðasta ári. Nokkur mál sem tengjast félaginu og öðrum í sömu samstæðu eru til meðferðar fyrir dómstólum.

Rekstrartekjur Faxa námu rúmum 244 milljónum á síðasta ári og jukust um rúmlega 48 milljónir milli ára. Gjöld drógust saman, en þar munar mestu um að engin launagjöld voru til staðar í fyrra samanborið við 13,5 milljónir króna árið 2019 fyrir starfsmann í hálfu stöðugildi. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu fjárfestingareigna nam tæpum 148 milljónum en matsbreytingum fylgdu jákvæð áhrif um 412 milljónir.

Eignir félagsins eru metnar á 6,9 milljarða króna en þar af er eignarhlutur í Lyfjum og heilsu hf. færður til bókar á tæpa þrjá milljarða. Þá á félagið fasteignir fyrir 810 milljónir og fjárfestingareignir fyrir 2,8 milljarða. Veltufjármunir nema tæpum 282 milljónum.

Eigið fé er tæpir 2,3 milljarðar en skuldir 4,6 milljarðar, þar af tæplega 1,7 milljarða skuld við tengda aðila. Stór hluti lánanna, rétt rúmir tveir milljarðar, er á gjalddaga árið 2023. Þá hefur félagið gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir langtímaskuldum dótturfélagsins Lyfja og heilsu að fjárhæð rúmlega tveir milljarðar. Á fasteignum félagsins, hvort sem þær eru flokkaðar sem slíkar eða sem fjárfestingareignir, hvíla veð, en uppgreiðsluvirði þeirra var 2,8 milljarðar í árslok 2020.

Eigandi Faxa ehf., í fleirtölu, er félagið Faxi ehf., í eintölu, en það er síðan í eigu Toska ehf. Það félag var í eigu Karls Emils Wernerssonar, en í kjölfar dóms Hæstaréttar í Milestone-málinu var eigendaskráningu Toska breytt þannig það komst í eigu sonar Karls, Jóns Hilmars. Svipaða sögu má segja af ýmsum öðrum eignum sem voru áður í eigu Karls. Sökum þess afréð skiptastjóri þrotabús Karls að höfða nokkur riftunarmál til að freista þess að ná eignunum undir skiptin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .