Velta samstæðu Lýsi hf. jókst um 22% milli ára og nam 21,9 milljörðum króna árið 2024. Félagið hagnaðist um 929 milljónir króna í fyrra samanborið við 818 milljónir árið áður.
Stjórn Lýsis leggur til að ekki verði greiddur út arður til eigenda á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024, að því er segir í ársreikningi Lýsis.
Veltuaukning vegna hás hráefnisverðs sem fer nú lækkandi
Stjórn Lýsis rekur mikla veltuaukningu til þess að afurðaverð á omegalýsi sé enn hátt frá því miklar hækkanir urðu á hrálýsisverði 2023.
„Hækkun á hráefnisverði omegalýsis frá fyrra ári, vegna aflabrests í Perú, leiddi þá og nú til verðhækkana og samdráttar í seldu magni. Þó sala hafi dregist saman er veltuaukningin mikil vegna hærri afurðaverða,“ segir í skýrslu stjórnar.
„Veiðar í Perú gengu vel á síðustu vertíð og hráefnisverð hefur nú tekið að lækka. Samhliða hefur verð á omegalýsisafurðum lækkað en markaðurinn er enn að ná jafnvægi og nokkur samkeppni er í sölu. Sé horft fram á veginn er ekkert sem bendir til minnkandi eftirspurnar omegalýsis og alþjóðlegar spár gera ráð fyrir árlegum vexti á komandi árum.“
Sala á öðrum lýsistegundum minnkaði á milli ára. Mikil aukning hafi hins vegar orðið í sölu neytendavara á erlendum mörkuðum og raunar hafi hún aldrei verið meiri.
Meðal helstu fjárfestinga félagsins í fyrra voru umfangsmiklar framkvæmdir í Þorlákshöfn sem munu ljúka um mitt þetta ár. Í byggingu séu þrír nýir 1.500 tonna lýsistankar ásamt endurnýjun húsnæðis og búnaðar fyrir meltuframleiðslu. Jafnframt sé verið að byggja stóran kæli og setja upp nýtt sjálfvirkt karaþvottatæki sem mun geta tekið við þeim 50.000 körum af hráefni sem berast árlega.
Lýsi sagði í umsögn við frumvarpsdrögum um hækkun veiðigjalda að áform ríkisstjórnarinnar væru alvarleg ógn við tilvist félagsins. Í ársreikningi félagsins segir að óvissa ríki um áform stjórnvalda og afleiðingar boðaðra breytinga.
Eignir Lýsis námu 21,3 milljörðum króna í árslok 2024 og eigið fé var tæplega 5 milljarðar króna.
Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, er stærsti hluthafi félagsins með 41% hlut samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins.