Magnús Árnason, stjórnarmaður hjá Ölgerðinni, keypti nýverið hlutabréf í félaginu fyrir um 10 milljónir króna í gegnum einkahlutafélag sitt og sambýliskonu sinnar, Sprengistjarna ehf.
Hann keypti 770 þúsund hluti á genginu 12,95 krónur á hlut fyrir rúmum tveimur vikum, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar sem samsvarar ríflega 10 milljónum króna. Dagslokagengið í gær var 12,6 krónur.
Magnús var kjörinn í stjórn Ölgerðarinnar í vor. Hann er fyrir í stjórn Nova og tæknifyrirtækisins Rue de Net.
Velta Ölgerðarinnar jókst um 2,2 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi fjárhagsársins. Samkvæmt árshlutauppgjöri félagsins sem birtist um miðjan mánuð kom um 29% af þeim vexti frá Iceland Spring sem er nú hluti samstæðu Ölgerðarinnar en var það ekki á sama tíma í fyrra.
Stjórnendur hækkuðu afkomuspá félagsins um rúmar 200 milljónir en upphaflega spá gerði ráð fyrir að EBITDA yrði um 5.000 – 5.350 milljónir en núverandi spá gerir ráð fyrir 5.200 – 5.500 milljónum.