Magnús Árna­son, stjórnar­maður hjá Öl­gerðinni, keypti ný­verið hluta­bréf í fé­laginu fyrir um 10 milljónir króna í gegnum einka­hluta­fé­lag sitt og sam­býlis­konu sinnar, Sprengi­stjarna ehf.

Hann keypti 770 þúsund hluti á genginu 12,95 krónur á hlut fyrir rúmum tveimur vikum, sam­kvæmt til­kynningu til Kaup­hallarinnar sem sam­svarar ríf­lega 10 milljónum króna. Dagslokagengið í gær var 12,6 krónur.

Magnús var kjörinn í stjórn Öl­gerðarinnar í vor. Hann er fyrir í stjórn Nova og tækni­fyrir­tækisins Rue de Net.

Velta Öl­gerðarinnar jókst um 2,2 milljarða króna á öðrum árs­fjórðungi fjár­hags­ársins. Sam­kvæmt árs­hluta­upp­gjöri fé­lagsins sem birtist um miðjan mánuð kom um 29% af þeim vexti frá Iceland Spring sem er nú hluti sam­stæðu Öl­gerðarinnar en var það ekki á sama tíma í fyrra.

Stjórn­endur hækkuðu af­komu­spá fé­lagsins um rúmar 200 milljónir en upp­haf­lega spá gerði ráð fyrir að EBITDA yrði um 5.000 – 5.350 milljónir en nú­verandi spá gerir ráð fyrir 5.200 – 5.500 milljónum.