Gullfosskaffi ehf., sem rekur kaffihús með veitingasölu auk smásölu á minjagripum og fatnaði við Gullfoss, hagnaðist um 236 milljónir króna á síðasta ári. Árið 2021 hagnaðist félagið um 62 milljónir króna og nær fjórfaldaðist því hagnaðurinn milli ára.
Félagið velti tæplega 1,2 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 529 milljóna veltu árið áður. Velta jókst því um 123% á milli áranna 2021 og 2022. Þess ber þó að geta að heimsfaraldurinn hafði eins og gefur að skilja mikil áhrif á veltu og afkomu Gullfosskaffis, sem staðsett er við eina vinsælustu náttúruperlu landsins.
Til marks um áhrif faraldursins féll velta félagsins niður í 215 milljónir króna árið 2020, en á árunum 2016-2019 velti félagið rétt rúmlega einum milljarði á ári hverju. Árið 2020 er líka eina árið sem félagið hefur verið rekið með tapi frá árinu 2003, en ekki er hægt að nálgast ársreikninga félagsins lengra aftur í tímann hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. Reksturinn náði sér aðeins betur á strik árið 2021 er velta fór upp í 529 milljónir og hagnaður nam eins og fyrr segir 62 milljónum króna.
Hraður viðsnúningur ferðaþjónustunnar árið 2022 eftir að allar sóttvarnartakmarkanir voru felldar úr gildi hafði eins og gefur að skilja mjög jákvæð áhrif á rekstur Gullfosskaffi. Velta fór eins og fyrr segir upp í tæplega 1,2 milljarða króna og hagnaður stórjókst og nam 236 milljónum. Raunar var 2022 metár í sögu félagsins, bæði þegar horft er til veltu og hagnaðar.
Leita þarf aftur til ársins 2018 til að finna næst mestu veltu í sögu félagsins en þá velti það einum milljarði og 42 milljónum betur. Þar til í fyrra hafði félagið svo mest hagnast um 154 milljónir króna árið 2016. Það er því óhætt að segja að Gullfosskaffi hafi náð vopnum sínum á ný í fyrra, og gott betur, eftir covid öldudalinn 2020-2021.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.