Niðurstöður rannsóknir á tilraunaútlögn malbiks frá í sumar sýna að útlögn blönduð lífbindiefni uppfyllir allar kröfur um hemlunarviðnám. Að auki stóðst það bæði hjólfarapróf og prófanir á nagladekkjaáraun.
Malbikið er þróað af Colas í samvinnu við Vegagerðina en Rannsóknasjóður Vegagerðarinnar styrkir verkefnið.
Í tilkynningu Colas segir að með því að blanda lífbindiefni í hefðbundið bik gæti heildarkolefnissparnaðurinn numið 4.675 tonnum CO2eq. á ári (í meðalári).
Þrjár mismunandi tegundir malbiks voru lagðar út á Reykjanesbraut, ein með lífbindiefni sem er aukaafurð úr pappírsvinnslu og ein með lífbindiefni úr grænmetisolíum. Lífbindiefnin eru kolefnisneikvæð sem þýðir að kolefnisspor biksins er allt að 85% minna en í venjulegu biki.
Þetta er í fyrsta sinn sem lífbindiefni er notað í malbik með þessum hætti á umferðarþungan veg hér á landi. Áður hefur verið lagt sambærilegt malbik á göngustíg í Hafnarfirði. Samskonar lífbindiefni hafa verið notuð í malbik víða í Evrópu.
Fyrstu rannsóknarniðurstöður sýna að enginn sjáanlegur munur er á malbiksblöndunum þremur.
„Allar malbiksblöndurnar uppfylla kröfur um hemlunarviðnám en meðaltalshemlunarviðnámið var 0.75. Það má vera að lágmarki 0.55,“ segir Björk Úlfarsdóttir, deildarstjóri Umhverfis, gæða og nýsköpunarsvið Colas. Að auki standast allar útlagnirnar bæði hjólfarapróf sem og próf á nagladekkjaáraun.
Hún segir að heildarkolefnissparnaður geti numið allt að 4675 tonnum CO2eq á ári.
„Það samsvarar ársnotkun um 1500 fólksbíla án mikils ef nokkurs viðbótarkostnaðar. Vegagerðin og veghaldarar eru því í dauðafæri að lækka kolefnisspor við lagningu vega all verulega“ segir Björk.
Fylgst verður náið með þróuninni næstu 5 árin, með tilliti til hemlunarviðnáms og hjólfaramyndunar.