Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,9% í 4,9 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Töluverðar hækkanir voru við opnun Kauphallarinnar í dag en þær gengu að hluta til baka þegar leið á daginn. Níu félög voru græn og níu rauð í viðskiptum dagsins.

Marel hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,4% og stendur gengi félagsins nú í 520 krónum. Þetta er sjöundi viðskiptadagurinn í röð sem gengi félagsins hækkar. Marel birtir uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar á morgun.

Hlutabréf Íslandsbanka og Arion banka hækkuðu einnig um tæplega 1,5% í dag. Gengi Íslandsbanka stendur nú í 130,6 krónum og Arion í 165 krónum.

Icelandair lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,2% í hundrað milljóna króna viðskiptum. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,83 krónum. Auk Icelandair þá lækkuðu hlutabréf Skeljar, Kviku, Haga og Oriog um meira en 1% í dag.

Amaroq hækkar í fyrstu viðskiptum

Málmleitarfyrirtækið Amaroq Minerals, , sem heldur á rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænlandi, var skráð á íslenska First North-markaðinn í dag. Hlutabréf félagsins voru fyrir skráð í TXS Venture kauphöllinni í Kanada og á AIM markaðnum í London.

Hlutabréfaverð Amaroq stóð í 63,5 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar en gengi félagsins var í kringum 60,5 krónum í fyrstu viðskiptum. Velta með bréf félagsins í íslensku Kauphöllinni nam þó aðeins 34 milljónum króna í 23 viðskiptum.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, hringdu inn viðskipti með hlutabréf auðlindafélagsins á First North-markaðnum í morgun.
© Aðsend mynd (AÐSEND)