Öll félög nema eitt á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkuðu í viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitalan hækkaði um 3,76% í dag og stendur gengið nú í 2.544,50. Marel hækkaði mest allra félaga, um 6,5%.

Þá hækkaði Kvika um 5,2%, Origo um 5%, Skel um 3,45% og Vís um 3,2%. Arion banki, sem var rétt í þessu að birta uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung, hækkaði um 2,9% í viðskiptum dagsins. Þá hækkaði gengi bréfa hjá Festi um 1,55%, en félagið birtir uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í dag.

Heildarvelta á markaði nam 4,7 milljörðum króna. Mesta veltan var með bréf Kviku banka, eða um 665 milljónir króna. Þá var tæplega 620 milljón króna velta með bréf Marel og Arion banka.

Á First North markaðnum hækkaði Play um 2,95% í 95 milljóna veltu og Kaldalón um 6,8% í 170 milljóna veltu. Hins vegar lækkaði gengi Alvotech um 3,4% í dag og sömuleiðis gengi Hampiðjunnar um 4,3%.