Marel tilkynnti í kvöld breytingar á framkvæmdastjórn og skipuriti sínu, nýtt 44 milljarða króna sambankalán ásamt því að birta uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung.
Félagið undirritaði samning um nýtt 300 milljóna dala sambankalán til þriggja ára, eða sem nemur 44 milljörðum króna. Hluti lánsins verður ráðstafað til uppgreiðslu á 150 milljóna evra ádráttarheimild sem nýtt var samhliða kaupum á Wenger í ár.
Lánið er sambankalán frá sömu bönkum og komu að 700 milljóna evra sambankalínu félagsins í febrúar 2020, þ.e. ABN AMRO, BNP Paribas, Danske Bank, HSBC, ING, Rabobank, og UniCredit. Samhliða nýju lántökunni var samið um rýmkun á skilmálum 700 milljóna evra lánalínunnar „í þeim tilgangi að auka svigrúm til að mæta tímabundnum sveiflum gjaldmiðla og sjóðstreymis“.
Í lok þriðja ársfjórðungs var lausafjárstaða félagsins 170,3 milljónir evra. Nýja lánið mun auka lausafjárstöðuna í 326,6 milljónir evra að teknu tilliti til handbærs fjár.
Færast nær rekstrarmarkmiði
Marel hagnaðist um 8,9 milljónir evra, eða um 1,3 milljarða króna, á þriðja fjórðungi. Afkoma félagsins dróst saman um meira en helming frá sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 23,2 milljónir evra. EBIT framlegð Marels jókst hins vegar úr 6,3% á öðrum fjórðungi upp í 10,3% á þriðja fjórðungi.
„Marel færist nær rekstrarmarkmiði um 14-16% EBIT framlegð í lok árs 2023,“ segir í uppgjörstilkynningu Marels. Áhrif verðhækkana hjá Marel komi fram að fullu á næstu fjórðungum sem muni stuðli að betri kostnaðarþekju og framlegð.
Tekjur Marels námu 450,6 milljónum evra á fjórðungnum, eða sem nemur 65,7 milljörðum króna, sem er 36% aukning á milli ára.
„Bætt rekstrarafkoma drifin áfram af hærri tekjum í kjölfar fjárfestinga í sjálfvirkni og stafrænum lausnum í framleiðslu okkar, aðfangakeðju og þjónustu, auk góðrar afhendingargetu og betri kostnaðarþekju á nýjum pöntunum.“
Pantanir námu 427,1 milljón evra á fjórðungnum samanborið við 471,8 milljónir evra á öðrum fjórðungi 2022 og 360 milljónum evra á þriðja fjórðungi 2021. Pantanabókin stóð í 751 milljón evra í lok fjórðungsins, samanborið við 774 milljónir evra í lok júní.
„Markaðsaðstæður eru áfram krefjandi í ljósi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu sem hafa leitt til óhagkvæmni í framleiðslu og þjónustu og hærri kostnaðar vegna afhendinga.“
Nýtt skipurit - „Focus First“
Marel kynnti einnig breytt skipulag sem ber nafnið „Focus First“ sem á að stuðla að aukinni verðmætasköpun og auka ábyrgð tekjusviða. Hið breytta skipulag samanstendur af sjö tekjusviðum, stoðsviðum og sölu- og þjónustusetrum. Uppgjörssvið verða áfram fjögur.
Framkvæmdastjórn Marels verður skipuð sex framkvæmdastjórum:
- Árni Oddur Þórðarson, forstjóri
- Árni Sigurðsson, viðskiptastjóri og aðstoðarforstjóri
- Linda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar
- Stacey Katz, fjármálastjóri
- Davíð Freyr Oddsson, mannauðsstjóri
- Laus staða, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar
David Wilson, framkvæmdastjóri Marel Meat, lætur af störfum fyrir félagið eftir 24 ára starf. David hefur verið hluti af framkvæmdastjórn félagsins frá árinu 2013.
Roger Claessen, framkvæmdastjóri Marel Poultry, mun taka tímabundið við sem framkvæmdastjóri Marel Meat þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Tveir reyndir stjórnendur Marel Poultry, Dirk den Hartog, Service Director, og Arie Tulp, Sales and Marketing Director, munu stýra Marel Poultry tímabundið.