Alþjóðlegir fjármálamarkaðir lækkuðu flestir í morgun eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði forsetatilskipun sem felur í sér nýja tolla á innflutning frá tugum ríkja.
Með aðgerðunum staðfestir Trump áframhaldandi áform um að stokka upp í alþjóðaviðskiptum og endursemja á eigin forsendum við öll ríki.
Framvirkir samningar tengdir S&P 500-vísitölunni lækkuðu um 0,4% í morgun og samningar tengdir Nasdaq lækkuðu um 0,5%.
Evrópska Euro Stoxx 50-vísitalan féll um 0,8%.
Í Asíu lækkaði indverska Nifty 50 um 0,4% og Taiex vísitalan í Taívan um 0,5%.
Í samtali við Financial Timessegir Prashant Bhayani, fjárfestingastjóri hjá BNP Paribas í Asíu, að markaðir hefðu verið á mikilli siglingu og að „smá niðurfærsla“ væri eðlileg.
Hins vegar hefur óvissan aukist hjá mörgum stórfyrirtækjum og fjárfestum sem óttast röskun á virðiskeðjum og kostnaðarhækkun.
Í forsetatilskipuninni, sem Hvíta húsið kynnti á fimmtudag, eru tollar á vörur frá mörgum helstu viðskiptaríkjum Bandaríkjanna hækkaðir.
Þó að tollarnir séu lægri en þeir sem kynntir voru á svokölluðum „frelsisdegi“ í apríl eru þeir engu að síður umfangsmiklir og geta haft víðtæk áhrif á alþjóðaviðskipti.
Tollar á íslenskar vörur hækka úr 10% í 15%, sem gæti haft áhrif á íslenskan sjávarútveg, lyfjaiðnað og tæknifyrirtæki sem flytja vörur til Bandaríkjanna.
Ísland bætist þar í hóp landa sem þurfa nú að endurmeta stöðu sína í viðskiptum við stærsta hagkerfi heims.
Meðal annarra breytinga sem vekja sérstaka athygli eru:
Tollar á vörur frá Kanada hækka úr 25% í 35%.
Tollar á Sviss hækka úr 31% í 39%.
Taívan og Víetnam fara niður úr um 30–46% í nýtt 20% þrep.
Indland fær 25% toll.
Tollar á Suður-Kóreu, Japan og ESB lækka allir í 15%.
Bandaríkin framlengdu hins vegar samningafrest við Mexíkó um 90 daga, sem markar undantekningu í nýja tollapakkanum og gefur von um að frekari viðræður kunni að skila niðurstöðu.
Andrými fyrir Bandaríkjadal?
Þrátt fyrir umtalsverða hreyfingu í hlutabréfaverði héldust bandarísk ríkisskuldabréf stöðug í viðskiptum í London á föstudagsmorgni og bandaríski dalurinn hreyfðist lítið gagnvart öðrum helstu gjaldmiðlum.
Þetta er andstætt þróuninni í apríl, þegar upphafleg tollahótun Trump olli víðtækri sölu á dalnum.
Sérfræðingar benda þó á að veiking dollarans gæti tekið hlé í kjölfarið.
„Veikur dalur gæti fengið andrými núna, við gætum jafnvel séð smá viðsnúning,“ segir Wei Yao, yfirmaður greiningar hjá Société Générale í Asíu.
Óvissa fyrir framleiðendur
Markmið forsetans er að styrkja stöðu bandarískra útflytjenda og örva innlenda framleiðslu.
Hins vegar hafa aðgerðirnar þegar kallað fram gagnrýni – bæði vegna hættu á verðbólgu og vegna spennu í samskiptum við mikilvæga bandamenn.
Fjöldi viðskiptasamtaka í Evrópu og Asíu hefur lýst yfir áhyggjum af mögulegum röskunum í flutningskeðjum og áhrifum á smærri framleiðendur.