Alþjóð­legir fjár­mála­markaðir lækkuðu flestir í morgun eftir að Donald Trump Bandaríkja­for­seti undir­ritaði for­seta­til­skipun sem felur í sér nýja tolla á inn­flutning frá tugum ríkja.

Með að­gerðunum stað­festir Trump áfram­haldandi áform um að stokka upp í alþjóða­við­skiptum og endur­semja á eigin for­sendum við öll ríki.

Fram­virkir samningar tengdir S&P 500-vísitölunni lækkuðu um 0,4% í morgun og samningar tengdir Nas­daq lækkuðu um 0,5%.

Evrópska Euro Stoxx 50-vísi­talan féll um 0,8%.

Í Asíu lækkaði ind­verska Nif­ty 50 um 0,4% og Taiex vísi­talan í Taí­van um 0,5%.

Í sam­tali við Financial Timessegir Pras­hant Bhay­ani, fjár­festinga­stjóri hjá BNP Pari­bas í Asíu, að markaðir hefðu verið á mikilli siglingu og að „smá niðurfærsla“ væri eðli­leg.

Hins vegar hefur óvissan aukist hjá mörgum stór­fyrir­tækjum og fjár­festum sem óttast röskun á virðiskeðjum og kostnaðar­hækkun.

Í for­seta­til­skipuninni, sem Hvíta húsið kynnti á fimmtu­dag, eru tollar á vörur frá mörgum helstu við­skiptaríkjum Bandaríkjanna hækkaðir.

Þó að tollarnir séu lægri en þeir sem kynntir voru á svo­kölluðum „frelsis­degi“ í apríl eru þeir engu að síður um­fangs­miklir og geta haft víðtæk áhrif á alþjóða­við­skipti.

Tollar á ís­lenskar vörur hækka úr 10% í 15%, sem gæti haft áhrif á ís­lenskan sjávarút­veg, lyfja­iðnað og tækni­fyrir­tæki sem flytja vörur til Bandaríkjanna.

Ís­land bætist þar í hóp landa sem þurfa nú að endur­meta stöðu sína í við­skiptum við stærsta hag­kerfi heims.

Meðal annarra breytinga sem vekja sér­staka at­hygli eru:

Tollar á vörur frá Kanada hækka úr 25% í 35%.

Tollar á Sviss hækka úr 31% í 39%.

Taí­van og Víetnam fara niður úr um 30–46% í nýtt 20% þrep.

Ind­land fær 25% toll.

Tollar á Suður-Kóreu, Japan og ESB lækka allir í 15%.

Bandaríkin fram­lengdu hins vegar samninga­frest við Mexíkó um 90 daga, sem markar undan­tekningu í nýja tolla­pakkanum og gefur von um að frekari viðræður kunni að skila niður­stöðu.

Andrými fyrir Bandaríkjadal?

Þrátt fyrir um­tals­verða hreyfingu í hluta­bréfa­verði héldust bandarísk ríkis­skulda­bréf stöðug í við­skiptum í London á föstu­dags­morgni og bandaríski dalurinn hreyfðist lítið gagn­vart öðrum helstu gjald­miðlum.

Þetta er and­stætt þróuninni í apríl, þegar upp­haf­leg tolla­hótun Trump olli víðtækri sölu á dalnum.

Sér­fræðingar benda þó á að veik­ing dollarans gæti tekið hlé í kjölfarið.

„Veikur dalur gæti fengið andrými núna, við gætum jafn­vel séð smá viðsnúning,“ segir Wei Yao, yfir­maður greiningar hjá Société Généra­le í Asíu.

Óvissa fyrir fram­leiðendur

Mark­mið for­setans er að styrkja stöðu bandarískra út­flytj­enda og örva inn­lenda fram­leiðslu.

Hins vegar hafa að­gerðirnar þegar kallað fram gagn­rýni – bæði vegna hættu á verðbólgu og vegna spennu í sam­skiptum við mikilvæga banda­menn.

Fjöldi við­skipta­sam­taka í Evrópu og Asíu hefur lýst yfir áhyggjum af mögu­legum röskunum í flutningskeðjum og áhrifum á smærri fram­leiðendur.