Markaðs­aðilar vænta þess að verð­bólga verði að meðal­tali 6,2% á yfir­standandi árs­fjórðungi og megin­vextir Seðla­bankans verði ó­breyttir í 9,25% en taki að lækka á fjórða árs­fjórðungi, sam­kvæmt könnun Seðla­banka Ís­lands.

Mun það vera meiri verð­bólga en þeir væntu í síðustu könnun í apríl en þeir búast við að verð­bólga hjaðni á­fram í kjöl­farið líkt og áður. Þá búast þeir við að verð­bólga verði 4,3% að ári liðnu, saman­borið við 4,6% í síðustu könnun en væntingar til tveggja og fimm ára voru ó­breyttar milli kannana í 4% og 3,8%.

Seðla­banki Ís­lands kannaði væntingar markaðs­aðila dagana 12. til 14. ágúst sl. Leitað var til 36 markaðs­aðila á skulda­bréfa­markaði, þ.e. banka, líf­eyris­sjóða, verð­bréfa- og fjár­festingar­sjóða, verð­bréfa­miðlana, fyrir­tækja með starfs­leyfi til eigna­stýringar og trygginga­fé­laga. Svör fengust frá 25 aðilum og var svar­hlut­fallið því 69%.

Lang­tíma­verð­bólgu­væntingar hækkuðu hins vegar lítil­lega og gera markaðs­aðilar ráð fyrir því að verð­bólga verði 3,6% að meðal­tali á næstu tíu árum saman­borið við 3,5% í síðustu könnun.

Sam­kvæmt SÍ gefur könnunin til kynna að markaðs­aðilar búist við litlum breytingum á gengi krónunnar á næstu misserum og að gengi evru gagn­vart krónu verði 151 króna eftir eitt ár.

„Miðað við mið­gildi svara í könnuninni búast markaðs­aðilar við því að megin­vextir bankans verði ó­breyttir í 9,25% á fjórðungnum en taki að lækka á fjórða árs­fjórðungi. Þeir gera ráð fyrir að megin­vextir verði 7,75% eftir eitt ár og 6,25% eftir tvö ár. Það eru lítil­lega hærri vextir en í síðustu könnun,“ segir á vef Seðla­bankans.

Hlut­fall svar­enda sem töldu taum­hald peninga­stefnunnar of mikið minnkaði milli kannana og var 52% saman­borið við 62% í apríl­könnuninni.

Á móti fjölgaði þeim sem töldu taum­haldið hæfi­legt í 40% úr 34% í síðustu könnun og þeim sem töldu taum­haldið of laust fjölgaði í 8% saman­borið við 3% í apríl.

Dreifing svara markaðs­aðila um væntingar til verð­bólgu jókst lítil­lega á flesta mæli­kvarða frá síðustu könnun en dreifing svara um væntingar til vaxta minnkaði hins vegar á flesta mæli­kvarða.