Stemningin var ágæt í Kauphöllinni í dag, 17 af 20 félögum á aðalmarkaði hækkuðu og aðeins eitt, Sýn, lækkaði í viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,53% og heildarvelta nam 5,6 milljörðum króna.

Íslenska Kauphöllin var í mikilli andstöðu við evrópska markaði, sem hófu daginn rauðir og hafa ekki batnað síðan. Stoxx Europe 600 hlutabréfavísitalan hefur þegar þetta er skrifað lækkað um 1,8% í viðskiptum dagsins.

Arion leiddi hækkanir dagsins með 3,72% hækkun í 1,1 milljarðs króna viðskiptum, sem einnig var mesta velta dagsins. Skeljungur hækkaði um 3,36% eftir aðeins 97 milljóna króna viðskipti, og Eimskip fylgdi fast á eftir með 3,24% í 265 milljóna viðskiptum.

Á eftir Arion banka var veltan mest með bréf Kviku, sem skiptu um hendur fyrir alls 1.052 milljónir króna og hækkuðu við það um 0,93%. Viðskipti með Marel voru einnig lífleg að vanda og námu 846 milljónum sem skiluðu 2,9% hækkun.

Sýn lækkaði sem fyrr segir eitt félaga, um 1,79% í aðeins 7 milljóna króna viðskiptum, en bréf Reita og VÍS stóðu í stað eftir viðskipti dagsins.

Viðskipti á First North hliðarmarkaðnum voru varla í frásögur færandi. Kaldalón hækkaði um 1,1% í 9 milljóna viðskiptum og Play um 1,99% í 10 milljónum.