Þrátt fyrir að varað hafi verið við stöðunni í orkumálum sem nú blasir við um árabil er enn tekist á um hvernig og jafnvel hvort það eigi að bregðast við. Jón Skafti Gestsson, sérfræðingur í hagfræðilegum greiningum hjá Landsneti, segir stöðuna grafalvarlega og að gríðarlegir hagsmunir séu í húfi.
Stjórnvöld hafa sett sér markmið um 55% samdrátt í losun fyrir árið 2030 og að fullum orkuskiptum verði náð og Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040.
Eftir situr þó staðreyndin að lítið sem ekkert hefur verið virkjað síðustu 15-20 ár, á sama tíma og samfélagið hefur vaxið hratt. Mögulegir virkjanakostir eru háðir gríðarlegri óvissu vegna óskilvirks leyfisveitingarferlis, sem getur tekið áratugi, auk þess sem kæruheimildir eru verulega víðtækar.
„Það er alveg ljóst að við munum ekki ná neinum markmiðum 2030, það er alveg kristaltært. Það er búið að setja markmið 2040, við gáfum það út í síðustu raforkuspá að þeim verði vart náð. Við segjum að það sé kannski hægt að ná því 2050 en þá þarf að laga leyfisveitingarferlin því gloppur í þeim eru markvisst notaðar til þess ítrasta til þess að tefja allan framgang orkuverkefna á Íslandi. Annars munum við einfaldlega ekkert ná þessum markmiðum okkar,“ segir Jón Skafti.
„Það sem raunverulega skiptir máli, og við þurfum sem þjóð að átta okkur á, er að við þurfum stóraukna raforkuvinnslu en til þess að það geti gerst þá þurfum við sterkara flutningskerfi, við þurfum skilvirkara leyfisveitingarferli svo þetta gerist nokkurn tímann, og við þurfum líka markaðsumhverfi þannig að barnið sé ekki andvana fætt þegar verkefni loksins kemst í gegnum leyfisveitingarferlið. Þetta þrennt eru grunnforsendurnar
fyrir því að hægt sé að hefjast handa við það að ná þessum markmiðum. Þetta hefði þurft að gerast fyrir 10-15 árum síðan, en það þýðir ekkert að ræða það lengur, þetta þarf bara að gerast strax.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur getal lesið fréttina í heild hér.