Ný mathöll mun opna við Ásbrú í vor í húsnæði sem hýsti eitt sinn veitinga- og skemmtistaðinn Top of the Rock á tímum varnarliðsins. Víkurfréttir greina frá þessu en staðurinn mun bera heitið Mathöllin Völlum.
Að sögn Kjartans Eiríkssonar, sem er í forsvari fyrir félaginu ToRo sem stendur að verkefninu, er nú þegar búið að ganga frá samningum við 6 af 8 veitingaaðila. Veitingastaðirnir verða kynntir á næstunni en boðið verður meðal annars upp á japanskan, indverskan og ítalskan mat.
„Enn eru tveir staðir lausir og því er tækifæri fyrir áhugasama aðila að koma og ræða við okkur. Við höfum mikinn áhuga á að ræða við aðila sem hafa metnaðarfullar hugmyndir að slíkum rekstri, til dæmis varðandi vandaða hamborgara, heilsurétti o.fl.,“ segir Kjartan í samtali við VF.
Húsnæðið mun skiptast upp í þrjá hluta undir mathöll, framleiðslueldhús og annan rekstur en nú þegar er búið að hanna endurbætur hússins og framkvæma stóran hluta þeirra.