Landeldisfyrirtækið Matorka fékk í gær samþykkta beiðni um greiðslustöðvun hjá Héraðsdómi Reykjaness. Fyrirtækið, sem rekur viðamikið landeldi á bleikju nálægt Grindavík, hefur orðið fyrir verulegum áhrifum vegna jarðskjálfta á svæðinu.

„Fjárhagsleg endurskipulagning á rekstri landeldisfyrirtækisins Matorku í Grindavík mun tryggja að fyrirtækið haldi áfram starfsemi og nái aftur sínum fyrri styrk þrátt fyrir verulegar áskoranir í kjölfar eldsumbrota á svæðinu,“ segir í tilkynningu félagsins.

Landeldisfyrirtækið Matorka fékk í gær samþykkta beiðni um greiðslustöðvun hjá Héraðsdómi Reykjaness. Fyrirtækið, sem rekur viðamikið landeldi á bleikju nálægt Grindavík, hefur orðið fyrir verulegum áhrifum vegna jarðskjálfta á svæðinu.

„Fjárhagsleg endurskipulagning á rekstri landeldisfyrirtækisins Matorku í Grindavík mun tryggja að fyrirtækið haldi áfram starfsemi og nái aftur sínum fyrri styrk þrátt fyrir verulegar áskoranir í kjölfar eldsumbrota á svæðinu,“ segir í tilkynningu félagsins.

Verulegt tjón út af jarðhræringum

Tæplega 80 tonn af bleikju í áframeldisstöð Matorku við Grindavík töpuðust í skjálftunum í nóvember 2023, vatnsflæði í áframeldinu fór úr skorðum og stórir eldistankar skemmdust. Heildarmagn bleikju hjá fyrirtækinu er nú um 450 tonn.

Félagið segir að rýmingar, endurtekið rafmagnsleysi og flutningur starfsfólks sem bjó í Grindavík hafi einnig haft neikvæð áhrif. Þá hafi fyrirtækið þurft að flytja vinnslu sína til Hafnarfjarðar fyrir sölu og útflutning.“

Hluthafar leggja fram „umtalsvert fjármagn“

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í sumar hefur hlutafé Matorku verið aukið í kjölfar ofangreindra atburða. Félagið segir að hluthafar fyrirtækiins hafi lagt verulegt fé í reksturinn auk þess að birgjar þess og lánveitendur hafa sýnt aðstæðum mikinn skilning.

„Matorka stefnir nú að því að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu til að tryggja verðmætabjörgun í Grindavík og tryggja rekstrarhæfi fyrirtækisins. Með henni verður fjármagn til áframhaldandi starfsemi tryggt og hafin sú vegferð að ná á ný fullri 3.000 tonna árlegri bleikjuframleiðslu,“ segir í tilkynningunni.

„Endurskipulagningin felur í sér umtalsvert fjármagn frá hluthöfum, umbreytingu lána í hlutafé og samkomulag við kröfuhafa. Samkomulag þess efnis hefur náðst við stærstu hluthafa og samningaviðræður við stærstu kröfuhafa og banka eru jafnframt langt komnar.“

Matorka segir að samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu hafi náðst við stærstu hluthafa. Samningaviðræður við stærstu kröfuhafa og banka séu jafnframt langt komnar.

„Fyrirtækið fór því fram á greiðslustöðvun til að tryggja sanngirni gagnvart öllum kröfuhöfum í yfirstandandi samningum og var hún samþykkt.“

Í árslok 2023 voru hluthafar Matorku 37 talsins en sá stærsti var hollenska félagið Aqua-Spark Cooperative UA með 31% hlut. Freyja framtakssjóður, sem er í rekstri Kviku eignastýringar, var næst stærsti hluthafinn með 15% hlut.