Hátt í 200 Boeing Max 9 farþegaþotur eru nú í flugbanni eftir að stórt gat rifnaði á skrokk slíkrar vélar á vegum Alaska Airlines í Bandaríkjunum. Icelandair rekur fjórar vélar af þeirri gerð, en þær hefur ekki þurft að kyrrsetja þar sem vandinn tengist búnaði sem þær búa ekki yfir. Fréttavefurinn ff7 greinir frá.
Atvikið átti sér blessunarlega stað meðan allir um borð í vélinni sátu með sætisólar spenntar og enginn sat í þeim sætum þar sem skrokkurinn rifnaði, og því sakaði engan, en vélin var í um 5 kílómetra hæð.
171 Max 9 þota hefur verið kyrrsett vegna málsins vestanhafs auk fimm véla Turkish Airlines, en flugfélagið er það eina í Evrópu auk Icelandair sem notar vélar af þessari gerð.
Ólíkt þeim kyrrsettu – sem nú er verið að yfirfara – er hefðbundinn neyðarútgangur á þeim stað sem um ræðir í vélum Icelandair, þar sem í þeim eru fleiri sætaraðir og því þörf á fleiri neyðarútgöngum. Turkish Airlines og flest bandarísku flugfélaganna höfðu breytt umræddum neyðarútgangi í glugga.
Í frétt ff7 kemur fram að Icelandair hafi fengið þetta staðfest frá Boeing, og því eigi sú yfirferð á viðkomandi búnaði sem bandarísk flugmálayfirvöld hafa gert kröfu um í öllum Max 9 vélum ekki við um vélar flugfélagsins.