Starfsmaður hjá bandarísku skyndibitakeðjunni McDonald‘s deildi nýlega mynd á samfélagsmiðlum sem sýndi skilti þar sem starfsfólki er meinað að segja upp. Skiltið var bæði á ensku og spænsku og segir á skiltinu að skyndibitakeðjan meti starfsfólk sitt og framlag þeirra.
Á skiltinu segir orðrétt: „Við metum þig, þinn vöxt og þitt framlag. Hér má ekki hætta á þessum veitingastað. Vegna þess að við teljum að það sé hægt að leysa margar deilur og það er stefna þessa veitingastaðar að starfsmaður geti ekki hætt fyrr en hann eða hún hefur rætt við veitingaeigandann eða yfirmann.“
Starfsmaðurinn deildi myndinni einnig á reddit síðuna r/McDonaldsEmployees þar sem aðrir starfsmenn tóku í sama streng og sögðust kannast við svipaðar reglur á sínum veitingastöðum. Einn notandi segir að samstarfsmaður hafi reynt að segja upp störfum með tveggja vikna fyrirvara en yfirmenn reyndu að sannfæra starfsmanninn um að hætta við að segja upp með því að bjóða launahækkun. Starfsmaðurinn greindi frá því að sú launahækkun hafi þegar verið áætluð fyrir alla starfsmenn mánuði á undan.
Viðskiptablaðið hafði samband við höfuðstöðvar McDonald‘s í Chicago og spurði hvort það væri ný stefna fyrirtækisins að meina starfsfólki að hætta með slíkum hætti og hvort þessi aðferð brjóti í bága við bandarísk vinnulög.
Í tölvupósti frá skyndibitakeðjunni til Viðskiptablaðsins segir að 95% allra McDonald‘s veitingastaða í Bandaríkjunum séu reknir með sérleyfi af sjálfstæðum eigendum og getur því keðjan ekki ákveðið reglur fyrir hvern og einn stað.
„Það fer allt eftir ákvörðun hvers og eins rekstraraðila.“
„Sem sjálfstæðir fyrirtækjaeigendur eru það sérleyfishafar sem fá að taka endanlega ákvörðun um bæði reglur og rekstrarkostnað en taka þó tillit til ráðlegginga okkar. Á sumum veitingastöðum má finna mismunandi verð og reglur en það fer allt eftir ákvörðun hvers og eins rekstraraðila.“
Eftir heimsfaraldur hafa mörg fyrirtæki vestanhafs verið í erfiðleikum með að halda í starfsfólk. Hugtakið Stóra uppsögnin (e. The Great Resignation) hefur einkennt bandaríska hagkerfið seinustu þrjú árin þar sem fólk kýs frekar að yfirgefa störf sem eru ekki krefjandi og eru líkleg til að hverfa með sjálfvirknivæðingu.
Hugtakið kemur frá bandaríska prófessornum Anthony Klutz, sem spáði fyrst um bylgjuna áður en tölur um starfsmannaveltu þar í landi sýndu að sú þróun myndi í raun eiga sér stað. Til að mynda var febrúar 2022 níundi mánuðurinn í röð þar sem fjórar milljónir Bandaríkjamanna sögðu upp störfum.