Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt Bjarna Ármannssyni fyrrverandi bankastjóra Glitni og núverandi forstjóra Iceland Seafood International í vil í dómi sem birtur er í dag.
Hélt Bjarni því fram að með því að sekta hann fyrir að hafa ekki greitt skatta vegna söluhagnaðar hlutabréfa í Glitni þegar hann hætti sem bankastjóri og síðar sækja hann til saka fyrir sama mál væri brot á mannréttindum hans.
Segir í dómnum að ríkið hafi brotið gegn 4. grein mannréttindasáttmálans fyrir að hafa dæmt hann tvívegis fyrir sama málið, og dæmt honum 5 þúsund evra skaðabætur og 29.800 evra málskostnað. Samsvarar það tæplega 700 þúsund króna skaðabótum og rúmlega 4 milljóna króna málskostnað.
Bjarni neitaði að tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið leitaðist eftir því í vikunni þar sem hann var staddur í grunnbúðum Evrest.