Viðskiptablaðið sagði í vikunni frá kaupum félagsins Bergeyjar á öllum fimm atvinnurýmum á jarðhæð nýja fjölbýlishússins að Borgartúni 24.

Bergey er nýtt fasteignafélag sem Magnús Berg, fyrrum forstjóri danska hönnunarfyrirtækisins Norr11, Torfi G Yngvason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Arctic Adventures, og Jónas Pétur Ólason fara fyrir. Þeir eru jafnframt meðal stærstu hluthafa félagsins.

Í eignasafni Bergeyjar í dag eru átta fasteignir sem eru flestar miðsvæðis í Reykjavík. Fasteignafélagið horfir m.a. til ferðaþjónustutengds iðnaðar og að vinna með frumkvöðlum að koma upp rekstri í eignum félagsins.

Eiga eina elstu hótelbyggingu Reykjavíkur

Magnús Berg segir að verkefnið í Borgartúni 24 sé frábrugðið fyrri verkefnum félagsins að því leyti að það hefur hingað til lagt áherslu á að finna eldri byggingar, gera þær upp og gefa þeim nýjan tilgang. Hann nefnir í því samhengi hótelið við Ránargötu 4A sem fasteignafélagið keypti í fyrra.

„Þetta er eitt elsta hótel Reykjavíkur sem var upphaflega rekið undir merkjum City Hotel. Þessi sögufræga bygging var í slæmu ástandi þegar við keyptum hana. Við réðumst í töluverðar endurbætur og í dag er rekið gríðarlega flott 30 herbergja „boutique“ hótel í húsinu undir merkjum Local 101.“

Haustið 2022 lét Magnús Berg af störfum sem forstjóri Norr11 eftir að hafa stýrt húsgagnahönnunarfyrirtækinu í tæp sex á. Hann tók í kjölfarið við stjórn Tungu, fjárfestingarfélags fjölskyldu sinnar, sem er kjölfestufjárfestufjárfestir í Bergey.

„Bergey samanstendur af nokkrum verkefnum sem við höfum unnið að á undanförnum tveimur árum. Á þessum tíma höfum við verið að finna okkar sérstöðu,“ segir Magnús Berg. „Við erum með mjög metnaðarfull áform um stækkun á næstu árum og ætlum að taka þátt í þeim fjölmörgu tækifærum sem eru framundan í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar. Þar er rætt nánar um við Magnús Berg um nýja fasteignafélagið og eignasafn þess.