„Íslenski orku- og veitugeirinn þarf að hafa puttann á púlsinum í því sem er að gerast í Brussel. Löggjöf og reglur frá Evrópusambandinu, sem innleiddar eru á Íslandi í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, móta mjög starfsumhverfi aðildarfyrirtækja Samorku.
Mitt hlutverk er að vakta þessa hröðu þróun, skilja hana og miðla heim í baklandið,“ segir Sveinn Helgason, sem hóf störf þann 1. apríl sem verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, með starfsstöð í Brussel.
Sveinn var um árabil fréttamaður hjá RÚV en hefur líka starfað í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins og í Eystrasaltsríkjunum á vegum utanríkisráðuneytisins, auk þess að vera sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu. Okkur lék forvitni á að vita hvernig fyrstu vikunnar í nýju starfi hefðu verið.
„Þessar fyrstu vikur í starfinu hef ég lagt áherslu á að sækja fundi og ráðstefnur sem veita innsýn í stöðu mála, byggja upp tengslanet og kortleggja hvaða nýja lagasetning, reglur og stefnumótun er í pípunum hjá Evrópusambandinu," segir Sveinn.
„Ég nýt þess líka að vera með starfsaðstöðu á Norrænu orkuskrifstofunni, þar sem systursamtök Samorku á hinum Norðurlöndunum og stór norræn orkufyrirtæki eru sömuleiðis til húsa. Hér er góð aðstaða og fulltrúar íslenskra orku- og veitufyrirtækja, sveitarfélaga og aðrir eru alltaf velkomnir þegar þeir eiga leið um Brussel.
Mér er líka ætlað að koma á framfæri sjónarmiðum íslenska orku- og veitugeirans og sinna hagsmunagæslu í samvinnu við aðildarfyrirtæki. Samorka hefur þannig verið formlega skráð hjá Evrópuþinginu sem hagsmunaðili, nokkuð sem auðveldar aðgang að þinginu og tryggir gagnsæi,“ segir Sveinn. „Ég beini líka að sjálfsögðu athyglinni að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem undirbýr lagasetningu og reglur og mótar stefnu á margvíslegum sviðum. Þar eru orku- og veitumálin undir en þau tengjast líka náið náttúru- og umhverfisvernd, samkeppnishæfni, öflugu atvinnulífi, rannsóknum og nýsköpun svo fátt eitt sé talið.“

Orkumálin nú í lykilhlutverki hjá ESB
„Orkumálin eru í lykilhlutverki hjá nýrri framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og orkumálastjóri ESB Dan Jörgensen telur það grundvallaratriði að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa til að ná markmiðum sambandsins um orkusjálfstæði og í loftslagsmálum,“ segir Sveinn. Hann bendir á að Evrópusambandið hafi sett sér það markmið að árið 2030 verði hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun innan ESB að minnsta kosti 42,5% en sambærileg tala árið 2023 var 24,5%. Og ESB ætli sér að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 90% árið 2040, miðað við losun árið 1990.
„Í þessu felast sóknarfæri fyrir Ísland og íslensk orkufyrirtæki. Ég get t.d. nefnt að í ársbyrjun 2026 verður kynnt sérstök aðgerðaáætlun ESB um að auka veg jarðvarma í ríkjum Evrópusambandsins í framhaldi af samþykkt ráðherraráðs ESB í árslok 2024. Þetta er dæmi um mál sem Samorka fylgist grannt með enda erum við Íslendingar í fremstu röð í nýtingu jarðhita og getum miðlað þeirri þekkingu og kunnáttu,“ segir Sveinn.
„Þegar ég sótti sérstakan vatnsaflsdag hér í Brussel í byrjun apríl kom líka fram hjá fulltrúa Evrópusambandsins að vatnsafl væri mikilvægt fyrir sveigjanleika sjálfbærra orkukerfa í Evrópu. Hjá Evrópusambandinu er líka aukinn þungi í að styrkja og byggja upp flutnings- og dreifikerfi raforku í álfunni í samvinnu við aðildarríkin. Rafmagnsleysið á Spáni og Portúgal í lok apríl beindi auðvitað kastljósinu enn frekar að þeim málum.“

Nýjar ógnir steðja líka að orkuinnviðum og bæði hjá Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu eru orkumál í brennidepli út frá ýmsum sjónarhornum.
„Orkuöryggi og að styrkja áfallaþol mikilvægra orku- og veituinnviða snýst um þjóðaröryggi – bæði á Íslandi og á alþjóðavísu. Við sjáum t.d. hvernig Rússar hafa gert látlausar árásir á orkukerfið í Úkraínu og í byrjun maí kynnti Evrópusambandið áætlun sína um að banna alfarið innflutning á rússnesku gasi þannig að honum verði hætt fyrir árslok 2027. Það knýr Evrópusambandsríkin í að hraða orkuskiptum og verða sjálfbær um orku innan ESB,“ segir Sveinn.
„Þessi óvissa á alþjóðavettvangi og hröð þróun í Evrópu er líka hvatning fyrir Ísland til að huga að sínu eigin orkusjálfstæði og styrkja stöðu sína sem leiðandi þjóð í grænni orkunýtingu og loftslagsmálum eins fram kom í ályktun aðalfundar Samorku fyrr á árinu.“

Evrópulöggjöf og reglur haft mikil áhrif á Íslandi
„Evrópulög- og reglur sem teknar hafa verið upp í íslenska löggjöf í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið á undanförnum þremur áratugum hafa haft margvísleg áhrif á íslenska orku- og veitugeirann,“ segir Sveinn.
„Ég nefni t.d. aðskilnað framleiðslu, flutnings, dreifingar og sölu á raforku. Landsnet tók þannig til starfa í ársbyrjun 2005 og nú ríkir lífleg samkeppni í sölu raforku á Íslandi,“ bætir hann við og bendir sömuleiðis á tilskipanir ESB um orkunýtni og endurnýjanlega orkugjafa, sem leiddar hafa verið í íslensk lög, en er stöðugt verið að uppfæra. Þær breytingar þurfi þá að taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með samþykki allra EFTA-ríkjanna sem eigi aðild að samningum - Íslands, Noregs og Lichtenstein.
„Vatnatilskipun Evrópusambandsins hefur einnig verið innleidd á Íslandi með tilheyrandi breytingum á stjórn vatnamála og nú vinnur Evrópusambandið að uppfærslu og nánari útfærslu neysluvatnstilskipunarinnar. Þá birtir Framkvæmdastjórnin væntanlega fljótlega Evrópustefnu um viðnámsþrótt vatns eða European Water Resilience Strategy,“ segir Sveinn og getur þess að Birna Guttormsdóttir, frá Umhverfisstofnun, starfi nú hjá Framkvæmdastjórninni og sé í lykilhluverki við undirbúning fyrrnefndrar stefnu.
„Á Íslandi hafa veitufyrirtæki líka lagt í fráveituframkvæmdir til að uppfylla umfangsmiklar nýjar kröfur og það skiptir máli að vita hvað er á döfinni hjá Evrópusambandinu í veitu- og vatnsverndarmálum.“

Samstarf við íslensk stjórnvöld mikilvægt
„Ég á nú þegar í góðu samstarfi og samskiptum við fulltrúa sendiráðs Íslands hér í Brussel, einkum sérfræðinga frá umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytinu sem eru öllum hnútum kunnugir um þau mál sem Evrópusambandið er að vinna að og skipta okkur máli,“ segir Sveinn. „Þá hef ég heimsótt EFTA-húsið til að fá enn betri innsýn í það ferli sem á sér stað þegar ESB-reglur verða að EES-reglum og eru þar með teknar upp í íslenska löggjöf. Hvaða samráð á sér þarna stað og hvernig við getum komið okkar sjónarmiðum á framfæri, hér í Brussel“ bætir Sveinn við.
Starfsmenn Samorku eru nú sex talsins eftir ráðningu Sveins sem segir að sér hafi verið afar vel tekið af samstarfsfólki sínu.
„Hjá Samorku er nú þegar að finna mikla þekkingu á Evrópu- og alþjóðamálum og það er afar dýrmætt að geta leitað heim í höfuðstöðvarnar í Borgartúninu til að fá góð ráð. Við vinnum öll þétt saman en mín ráðning er til marks um þá áherslu framkvæmdastjóra og stjórnar að styrkja enn frekar upplýsingamiðlun og þjónustu við aðildarfyrirtækin á þessu sviði. Ég finn nú þegar fyrir góðum stuðningi og hlakka til að hitta fullt af fólki úr þessum geira á Samorkuþinginu á Akureyri,“ segir Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku að lokum.
Greinin birtist í sérblaðinu Samorkuþing 2025.