Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT, lutu í lægra haldi fyrir Eflingu fyrir Félagsdómi á dögunum. Forsvarsmenn samtakanna hafa ítrekað kallað eftir því að horft verði til sérstöðu greinarinnar við kjaraviðræður.

Samkvæmt nýrri greiningu sem KPMG framkvæmdi í samstarfi við SVEIT eru um 11.600 einstaklingar starfandi í greininni. Í dag eru ríflega 170 fyrirtæki félagsmenn í SVEIT og eru starfsmenn þeirra hátt í sex þúsund talsins, eða ríflega helmingur af öllum starfsmönnum í greininni.

Hlutfall launa af veltu fyrirtækja á veitingamarkaði hefur í gegnum tíðina verið mjög hátt í samanburði við aðrar greinar. Frá desember 2018 til ágúst 2023 hækkaði vísitala launa sem snýr að rekstri gististaða og veitingarekstri um 56,8% en á sama tímabili hækkaði vísitala launa á almennum vinnumarkaði aðeins um 41,6%.

Ein skýring sem liggur að baki er hátt hlutfall starfsmanna í hlutastarfi en samkvæmt fyrrnefndri greiningu er 81% af starfandi einstaklingum í veitingarekstri í hlutastarfi. Á almennum vinnumarkaði er hlutfallið aftur á móti 24%. Þá er 61% af vinnutímum unnin utan hefðbundins dagvinnutíma og eru 69% af vinnu greidd með álagi ofan á dagvinnukaup.

Afkoman versnar

Í greiningu KPMG kemur fram að afkoma fyrirtækja í veitingarekstri fari versnandi en um 46% af fyrirtækjum skiluðu EBITDA hlutfalli undir 5% í fyrra. Til samanburðar var hlutfall fyrirtækja með EBITDA hlutfall undir 5% alls 42,1% árið 2021 og 37,5% árið 2016. Hagnaðarhlutfall fyrir skatta var 5,4% árið 2022 en 4,8% hjá félögum með undir 350 m.kr. veltu. Samkvæmt ársreikningum félaga í greininni var 89% fyrirtækja með tekjur undir 350 m.kr. í fyrra.

Þá urðu 28 fyrirtæki í veitingarekstri gjaldþrota á fyrstu átta mánuðum ársins. Til samanburðar voru þau 16 allt árið 2022 og 23 árið 2021 en fjöldi gjaldþrota var mestur á Covid árinu 2020, þegar 51 fyrirtæki varð gjaldþrota. Þá hefur fjöldi nýrra fyrirtækja sem hlutfall af fjölda fyrirtækja á vanskilaskrá aukist á árinu og í dag eru um 13% fyrirtækja í veitingarekstri á vanskilaskrá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.