Icelandair fagnar, í umsögn við frumvarp til laga um viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir, að íslensk stjórnvöld hafi tryggt sérákvæði hvað varðar flugfélög sem fljúga til og frá Íslandi, þegar kemur að úthlutun fríheimilda út árið 2026. Flugfélagið kallar þó eftir að gætt verði að hagsmunum Íslands í þessum málaflokki til lengri tíma.

„Þegar þau sérákvæði renna út er gert ráð fyrir því að í framhaldinu verði tekið tillit til landfræðilegrar stöðu Íslands hvað varðar flugfélög sem fljúga til og frá Íslandi. Það er því mikilvægt að hagsmunir Íslands verð áfram tryggðir þannig að ekki verði einungis um tímabundin sérákvæði að ræða,“ segir í umsögn Icelandair sem forstjórinn Bogi Nils Bogason skrifar undir.

Megi ekki leiða til hærri einingakostnaðar fyrir íslensk félög

Snemma á þessu ári var mikið fjallað um fyr­ir­hugaða lög­gjöf ESB um los­un­ar­heim­ild­ir á flug­ferðir. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra og Guðmundur Hafsteinsson, stjórnarformaður Icelandair, lýstu því bæði yfir á fyrri hluta ársins um væri að ræða stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES samningsins.

Í maí var tilkynnt um að framkvæmdastjórn ESB hefði fallist á að framlengja núverandi kerfi endurgjaldslausra losunarheimilda út árið 2026. Aðlögun Íslands við tilskipunina felur einnig í sér að kaup á sjálfbæru flugeldsneyti á flugvöllum á Íslandi veitir rétt til 100% endurgreiðslu í formi losunarheimilda, á mismuni í verði miðað við kaup á jarðefnaeldsneyti.

Icelandair segir að við setningu reglna sem hafa áhrif á kostnað flugfélaga í tengslum við kolefnislosun sé mikilvægt að þær tryggi jafna samkeppnisstöðu félaga og leiði hvorki til kolefnisleka né hærri einingakostnaðar fyrir íslensk flugfélög.

Icelandair eigi sem dæmi í samkeppni við fjölda erlendra flugfélaga sem fljúgi beint á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Icelandair hafi hins vegar viðkomu á Íslandi sem leiðir af sé að þeirra flug er engra í kílómetrum talið.

„Muni viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir leiða til þess að flug færist frá íslenskum flugfélögum til annarra aðila þá kann samkeppnisstaða íslenskra félaga að veikjast. Þannig þarf að huga að því að samkeppnisstaða íslenskra flugfélaga, sem og annarra evrópskra flugfélaga, verði ekki skert vegna reglnanna.“

Mikilvægt að tryggja aðgang að sjálfbæru flugvélaeldsneyti

Icelandair segir mikilvægt að hér á landi verði tryggður aðgangur að sjálfbæru flugvélaeldsneyti. Flugfélagið bendir á að í viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir komi fram hvatar – með niðurgreiðslu á verðmuni á sjálfbæru flugvélaeldsneyti og almennu þotueldsneyti í formi fríheimilda - til þess að stuðla að því að flugrekendur nýti sjálfbært flugvélaeldsneyti.

Verði aðgengi að sjálfbæru flugvélaeldsneyti ekki tryggt muni íslenskir flugrekendur ekki geta nýtt sér þessa hvata en bera þó aukinn kostnað af eldsneyti vegna íblöndunarkröfu þeirrar sem sett er fram í gerð ESB um íblöndun sjálfbærs þotueldsneytis.

„Kæmi sú staða upp væru íslenskir flugrekendur í þeirri stöðu að greiða hærra verð fyrir þotueldsneyti án þess að geta bætt frammistöðu sína í loftslagsmálum eða nýtt hvata þá sem settir eru fram í frumvarpi þessu.“