Verð á aðföngum í byggingaframkvæmdum hefur hækkað talsvert á síðustu misserum og hökt hefur verið á afhendingu, eftir raskanir á aðfangakeðjum í kjölfar Covid-faraldursins og stríðsins í Úkraínu.

Vignir Steinþór Halldórsson, annar eigenda byggingarfyrirtækisins Öxar, segir að vissulega hafi þessir þættir áhrif á starfsemi verktaka en óttast þó frekar sölustopp á fasteignarmarkaðnum, vegna hækkandi vaxta og hertra lánþegaskilyrða.

„Ég sagði það nú einhvern tímann að það er ekkert mál að græða pening á þessum bransa en það er auðveldara að tapa honum. Þetta er alveg rosa vandmeðfarin lína. Af því að í svona öfgakenndu hagkerfi eins og við erum þá er svo auðvelt að rúlla á hausinn,“ segir Vignir í nýlegum hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Hann tekur 50 íbúða fjölbýlishús sem dæmi. Þegar framkvæmdir eru á lokastigum hafi byggingafyrirtækið lagt fram allan kostnað. Ef íbúðamarkaðurinn snöggkólnar og illa gengur að selja í heilt ár þá hverfi allur ágóði af verkefninu í fjármagnskostnaði.

„Það situr minna en ekkert eftir. Þetta er ekki bara „vondi græða verktakinn“. Hann er alveg til líka sá fátæki.“

Bólan ekki spungin en bullið búið

Þáttastjórnendur spurðu Vigni um álit á verðhækkunum á íbúðamarkaði á síðustu tveimur árum og hvort að „bólan væri sprungin“. Þeir vitnuðu þar í lækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í águst.

„Nei, hún er ekki að fara springa […] Ég myndi segja að bullið væri búið en bólan er ekki sprungin.“

„Þegar launavísitalan og íbúðaverðshækkanir fylgjast að, þá erum við í toppmálum. En það gliðnar alltaf á milli. Ég hef nefnt að þetta gerist á sjö ára fresti, kannski lengri tíma,“ segir Vignir. Þegar gliðnunin á milli launavísitölunnar og íbúðaverðshækkana verður of mikil, þá fari allt til fjandans „eða eins og þið kjósið að kalla þetta „bóla sprungin““.

„Það er engin bóla sprungin, hún bara þurfti að stoppa þessi hækkun á verðinu. Og blessaðir verið þið, ég hef hagsmuni á að íbúðaverðið hækki. En þá má ekki vera þannig að þetta hækki svo mikið að það hafi enginn efni á að versla þetta [...] Ég meina 25% hækkun á ársgrundvelli, það er bara rugl.“

Vignir skilur þó vel að sparifé fólks hafi leitað inn á fasteignamarkaðinn „því að steypa hefur aldrei klikkað sem fjárfestingarkostur. Aldrei, svo lengi sem þú ert skynsamur í eiginfjárframlagi“.

„Við kunnum þennan leik ekki“

Vignir vonaði að Íslendingar, við færslu úr verðtryggðum í óverðtryggð lán á síðustu árum, myndu taka upp viðhorf Evrópubúa þegar kemur að því að spenna ekki bogann yfir um í fasteignaviðskiptum.

„Af því að við erum svo klikkuð þjóð líka. Við vitum það að allt þetta unga fólk, þegar þú ferð af stað [...] þá freistast þú í lægstu vextina, lægstu afborgunina en veist að þetta er mesta áhættan. Hvað gerir þú? Þú spennir ekki bogann til hins ítrasta af því að þú veist að allt sem fer upp kemur niður.

Hvað gerir hinn hefðbundni Evrópubúi? Hann hættir að panta pítsu á föstudögum fyrir fölskylduna, fer að baka hana sjálfur. Sleppir utanlandsferðinni á þessu ári, tekur hana bara á því næsta. Við bara hækkum yfirdráttinn. Við erum ekkert að fara að slá af lísgæðum eða daðurí við sjálfan okkur. Við kunnum þennan leik ekki.“

Annar umsjónarmaður hlaðvarpsins spurði hvort að einstaklingar eins og hann sjálfur sem væru ekki enn búnir að kaupa fasteign væru búnir að missa af lestinni. Vignir gaf lítið fyrir slíkar pælingar.

„Þetta hjal þitt er bara vitleysa. Þegar þú ert tilbúinn að kaupa þér íbúð, bara kauptu hana. Ég man ekki eftir að hafa heyrt neina kynslóð ekki ræða hvað það var „ógeðslega erfitt að kaupa íbúð þegar ég var ungur“ [...] Þú verður kominn í bullandi fín mál áður en þú veist af.“

Ekki hrifinn af vaxtahækkunum en Ásgeir „meikar svo mikinn sense“

Líkt og þekkt er hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti úr 2,0% í 5,75% í ár og hert lánþegaskilyrði, m.a. með lækkun á hámarki veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85%.

„Núna er eiginlega búið að stoppa fólk eins og þig í að kaupa þína eigin íbúð,“ segir Vignir. Ég heyrði í kollega um daginn. Hann seldi 50 íbúðir, það gengu 10 til baka af því að 20% [kaupenda] féllu bara á greiðslumati.“

Þó að hann sé fúll yfir miklum vaxtahækkunum segist Vignir hafa mikla trú á Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra og telur að hann hafi gefið bankanum nýtt líf. Ásgeir sé einnig líklegur til að lækka vexti jafnhratt til baka þegar birtir yfir.

„Þetta meikar allt svo mikinn sense. [...] Hann er bara að ráða fólki heilt: ekki taka stærra lán en þú ræður við að borga,“ segir Vignir. Með framangreindum aðgerðum sé verið að koma í veg fyrir aðstæður líkt og komu upp í kringum fjármálahrunið árið 2008.

Hins vegar telur hann að þótt það hægist á markaðnum á næstu misserum þá sé undirliggjandi eftirspurn ekki að fara að hverfa. Eftir örfá ár muni markaðurinn springa aftur „af því að við erum alltaf í ökkla eða eyra“.