Skógareldar, snjóstormar í Bandaríkjunum og hvirfilbyljir í Evrópu voru meðal atburða sem ollu því að tjón hjá vátryggingafyrirtækjum vegna náttúruhamfara námu áætluðum 40 milljörðum dala, eða um 5.000 milljörðum króna, á fyrri helmingi ársins. Þetta er versta byrjun hjá náttúruhamfaratryggingum á síðasta áratug, að því er kemur fram í frétt Financial Times.
Endurtryggingafyrirtækið Swiss Re sagði að veðuröfgar vegna loftslagsbreytinga og hröð uppbygging mannvirkja á hættusvæðum hafi leitt til „sífellt meira“ tjóns vegna náttúruhamfara. Tjónið hefur ekki verið meira á fyrri hluta ársins frá árinu 2011 þegar jarðskjálftar riðu yfir Japan og Nýja Sjáland.
Tap vegna snjóstorma í Bandaríkjunum í vetur, sem fengu nafnið Uri, er áætlað um 15 milljarða dala sem er hæsta tjón á skrá fyrir slíkan atburð.
Swiss Re gaf ekki upp spá fyrir tjón af þessum orsökum fyrir seinni helming ársins. Tryggingafyrirtækið gaf þó til kynna að árið 2021 gæti orðið metár í þessum efnum. Var meðal annars bent á flóð í Kína og Evrópu í júlí ásamt því að versti hluti fellibyljatímabilsins er enn ókominn.